Alþjóðasiglingamálastofnunin - IMO
Alþjóðasiglingamálastofnunin IMO
Ísland er aðili að Alþjóðasiglingamálastofnuninni (IMO) . Alþjóðasiglingamálastofnunin er sérhæfð stofnun Sameinuðu þjóðanna sem ber ábyrgð á öryggi og vernd skipa og vörnum gegn mengun sjávar frá skipum.
Sem sérhæfð stofnun Sameinuðu þjóðanna setur IMO alþjóðlegar reglur um siglingaöryggi og umhverfisvernd á sviði alþjóðasiglinga. Meginhlutverk stofnunarinnar er að skapa regluramma fyrir hagsmunaaðila í siglingum. Reglurnar eiga að vera sanngjarnar og skilvirkar og vera lögfestar og framkvæmdar sem víðast.
Með öðrum orðum er hlutverk IMO að skapa jöfn samkeppnisskilyrði svo að skipaútgerðir geti ekki tekið á fjárhagslegum vanda með því einfaldlega að fara krókaleiðir og skerða öryggi skipa, vernd þeirra og umhverfisáhrif af rekstri þeirra. Þessi nálgun hvetur einnig til nýsköpunar og skilvirkni.
Birting gerninga Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar (IMO)
Nánar um Alþjóðasiglingamálastofnunina
Sjóflutningar og skipaútgerð eru í eðli sínu alþjóðlegar atvinnugreinar og því er ekki hægt að starfrækja skip með skilvirkum hætti nema þær reglur sem um þær gilda séu samþykktar alþjóðlega og þeim hrint í framkvæmd á alþjóðavettvangi. IMO er sá vettvangur þar sem þetta ferli fer fram.
Meira en 80 prósent af flutningum á heimsvísu fara fram á sjó og samfélög um allan heim njóta góðs af sjóflutningum. Siglingar eru skilvirkasta og hagkvæmasta leiðin til vöru- og farþegaflutninga. Sjóflutningar eru áreiðanleg og ódýr leið til að flytja vörur um allan heim. Þeir greiða fyrir viðskiptum og auka velmegun meðal þjóða.
Allur heimurinn treystir á örugga, skilvirka, alþjóðlega sjóflutninga og Alþjóðasiglingamálastofnunin tryggir að reglurnar sem um þá gilda séu þróaðar og settar með skilvirkum hætti. Reglur sem verða til á vettvangi IMO ná til allra þátta alþjóðlegra sjóflutninga og siglinga skipa, þ.m.t. hönnunar, smíði, búnaðar, mönnunar, rekstrar og förgunar skipa þegar þau ljúka hlutverki sínu. Reglunum er ætlað að tryggja að þessi mikilvæga atvinnugrein sé ávallt örugg, umhverfis- og orkuvæn.
Aðildarríki Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar og stofnanir hennar, nefndir og undirnefndir, stofnanir borgaralegs samfélags og skipasmiðjur vinna saman að því að tryggja grænt hagkerfi í siglingum og sjálfbæran vöxt á. Eitt af helstu forgangsmálum IMO á næstu árum er að stuðla að sjálfbærum siglingum og sjálfbærri þróun á sviði siglinga.
Sem undirstofnun í kerfi Sameinuðu þjóðanna vinnur hún í samræmi við áætlun til ársins 2030 um sjálfbæra þróun og tengd markmið þar að lútandi. Dagskrármál á verkefnalistanum til 2030 verða því aðeins að veruleika að sjóflutningar á heimsvísu styðji vel við alþjóðaviðskipti þjóða heims og hagkerfi þeirra.
Ítarefni:
Gerð IMO-samninga