Réttindi farþega í siglingum

Farþegar hafa viss réttindi þegar þeir ferðast með ferjum innan evrópska efnahagssvæðisins.  Í fyrsta lagi má ekki mismuna í verði eftir þjóðerni. Í öðru lagi eiga farþegar að fá upplýsingar, umönnun og jafnvel bætur ef hnökrar verða á siglingu, á borð við seinkun eða aflýsingu.

Réttindi farþega í siglingum

 

Réttindi farþega í siglingum er skipt í:      

  • Upplýsingagjöf  meðan á ferð stendur
  • Bætur ef seinkun verður
  • Réttindi fatlaðra og hreyfihamlaðra

Gildissvið réttindanna nær til skipa sem sigla frá höfn innan Evrópska efnahagssvæðisins (EES) og skipa koma til hafnar innan EES ef flytjandinn hefur staðfestu innan EES.

Réttindin gilda m.a. ekki þegar:

  • 3 eða færri eru í áhöfn skips eða heildarlengd siglingar með farþega er styttri en 500 metrar (aðra leið)
  • Skip má ekki flytja fleiri en 12 farþega
  • Í skoðunar og kynnisferðum að undanskildum skemmtisiglingum
  • Í skipum sem eru ekki vélknúin eða sögufrægum farþegaskipum frá því fyrir 1965 sem eru í upprunalegri gerð eða endursmíðuð að mestu leyti úr upprunalegu efni og mega ekki flytja fleiri en 36 farþega

Réttur á upplýsingum


Farþeginn á rétt á að fá viðunandi upplýsingar  meðan á ferð stendur, þ.m.t.  um réttindi þeirra, hvernig á að kvarta, upplýsingar um hlutverk Samgöngustofu í málum sem þessum og hvernig á að hafa samband.  Fatlaðir og hreyfihamlaðir farþegar eiga einnig rétt á að fá upplýsingar um aðgengi.

Þegar siglingu seinkar eða er aflýst  á flutningsaðili að upplýsa farþega um:

  • Stöðu mála, eins fljótt og auðið er og eigi síðar en 30 mínútum eftir áætlaða brottför
  • Gefa upp nýja áætlun um brottför og komutíma um leið hún liggur fyrir.

Réttur á þjónustu við aflýsingu eða seinkun yfir 90 mínútur


Ef seinkun verður á brottför á flutningsaðili að bjóða farþegum upp á hressingu eða máltíð í samræmi við lengd biðtímans og viðunandi aðstöðu um borð eða í landi.   Flutningsaðili getur takmarkað kostnað við gistingu við 80 evrur á nótt og sett skilyrði um þriggja nátta hámark.

Réttur á bótum þegar komu á áfangastað seinkar


Án þess að missa rétt sinn til flutnings, geta farþegar farið fram á bætur frá flutningsaðila ef þeir standa frammi fyrir því að komu til lokaákvörðunarstað seinkar eins og fram kemur í flutningssamningi. Lágmarksbætur skulu nema 25% af andvirði farmiðans vegna seinkunar sem er að a.m.k.:

  •  Ein klukkustund, ef um er að ræða ferð sem áætlað er að standi yfir í allt að fjórar klukkustundir,
  • tvær klukkustundir, ef um er að ræða ferð sem áætlað er að standi yfir í meira en fjórar klukkustundir en þó ekki meira en átta klukkustundir,
  • þrjár klukkustundir, ef um er að ræða ferð sem áætlað er að standi yfir í meira en átta klukkustundir en þó ekki meira en 24 klukkustundir, eða
  • sex klukkustundir, ef um er að ræða ferð sem áætlað er að standi yfir í meira en 24 klukkustundir.

Ef seinkunin verður meiri en tvöfaldur sá tími sem hér eru tilteknir skulu bæturnar nema 50% af andvirði farmiðans.

Undanþágur frá bótum


Réttur til bóta gildir ekki ef flutningsaðili getur sýnt fram á að ferð sé aflýst eða henni seinkar af völdum  veðurskilyrða sem stofna siglingaröryggi skipsins í hættu eða af völdum óvenjulegra aðstæðna sem koma í veg fyrir að farþegaflutningar eigi sér stað og ekki hefði verið hægt að koma í veg fyrir, jafnvel þótt gripið hefði verið til allra réttmætra ráðstafana.

Réttindi fatlaðra og hreyfihamlaðra


Fatlað og hreyfihamlað fólk á sama rétt á þjónustu og aðrir farþegar auk aðstoðar í höfnum og um borð í skipum og skulu fá bætur ef hjálpartæki eru skemmd.

Bókanir og miðar skulu vera í boði fyrir fatlaða og hreyfihamlaða án nokkurs aukakostnaðar og á sömu kjörum og aðrir farþegar fá.  Flutningsaðilar og ferðaskrifstofur mega ekki neita að taka við bókun eða gefa út farmiða vegna fötlunar einstaklings.  

Flutningsaðilar geta þó neitað fari í þeim tilfellum þar sem flutningurinn getur talist ógn við:

  • Kröfur til siglingaöryggis.
  • Þegar hönnun fars eða hafnarmannvirkja kemur í veg fyrir flutning.

Flutningsaðilar og hafnaryfirvöld eiga eftir því sem við á að bjóða fötluðum og hreyfihömluðum einstaklingum þjónustu án endurgjalds, að því tilskyldu að:

  • Tilkynnt hafi verið um þörf hennar a.m.k. 48 klst. áður en þjónustunnar er þörf.
  • Neytandi mæti á tiltekin mótstað a.m.k. 60 mínútum fyrir brottför.

Ef hægt er þá skal sníða þjónustuna að þörf viðkomandi einstaklings.

Flutningsaðilar og hafnaryfirvöld eru ábyrg fyrir skemmdum á hjálpartækjum fatlaðra og hreyfihamlaðra einstaklinga ef þær verða á meðan þau eru á þeirra ábyrgð. Bæturnar skulu vera í samræmi við þann kostnað sem verður vegna viðgerða eða endurnýjunar.

Kvartanir


Ef farþegar vilja sækja rétt sinn er fyrsta skref alltaf að hafa samband við flutningsaðilann og fara fram á bætur hjá honum.

Ef aðilar ná hins vegar ekki ásættanlegri niðurstöðu sín á milli er Samgöngustofa sá aðili sem ber ábyrgð á framkvæmd reglugerðarinnar.  Hægt er að fylla út eyðublað ....(slóð á rafrænt eyðublað) eða senda tölvupóst á neytendur@samgongustofa.is

Innleiðing á  ESB reglugerð 1177/2010

Reglugerðin sem tekur á réttindum farþega sem ferðast sjóleiðis var innleidd í íslenskan rétt með breytingu á siglingalögum nr. 34/1985 sbr. lög nr. 12/2016 þann 1. mars 2016 og reglugerð 536/2016.

Ársskýrslur



Var efnið hjálplegt? Nei