Farþegaskip

Hér að neðan má finna upplýsingar um þær kröfur sem gerðar eru til farþegaskipa og reksturs þeirra. Ekki er um tæmandi lista að ræða. Ítarlegri upplýsingar er finna í lögum, reglum og skoðunarhandbókum.

Farþegaleyfi

Samkvæmt 41. gr. skipalaga nr. 66/2021 eru farþegaflutningar í atvinnuskyni, þar með taldar skoðunar- og veiðiferðir ferðamanna, með skipum sem lögin gilda um háðir leyfi Samgöngustofu. Skal slíkt leyfi gefið út þegar leitt er í ljós að fullnægt er ákvæðum laga þessara og reglugerða settra samkvæmt þeim, svo og ákvæðum annarra laga og reglugerða sem gilda um skip í farþegaflutningum. Fyrir slík skip skal fjöldi í hverri áhöfn ákveðinn af Samgöngustofu með hliðsjón af gerð skips, fyrirkomulagi þess og búnaði, svo og farsviði þess og útivist, þannig að fjöldi í áhöfn og skipting starfa fullnægi skilyrðum um að unnt sé að sinna öllum þáttum sem tryggja öryggi farþega, skipverja og skips. Skipstjóri skal varðveita um borð í skipi skjal er sannar gildi leyfisins.

Haffæri farþegaskips

Farþegaskip sæta lögboðnum skoðunargerðum á grundvelli skipalaga nr. 66/2021. Almennar reglur um haffærisskírteini gilda um farþegaskip.

Öryggisskírteini farþegaskips 24 metra og lengri

Farþegaskip 24 metrar að lengd og lengra skal fá útgefið öryggisskírteini farþegaskips, skv. 9. gr. reglugerðar um öryggi farþegaskipa í innanlandssiglingum nr. 666/2001, með síðari breytingum.

Skoðun vegna farþegaflutninga

Áður en farþegaskip fær útgefið farþegaleyfi þarf að gera skoðun á skipinu í samræmi við skipalög nr. 66/2021. Með skoðun á að ganga úr skugga um að fullnægt sé ákvæðum skipalaga og annarra laga um farþegaskip og reglugerðum skv. þeim, sbr. 3. gr. rg. um leyfi til farþegaflutninga með skipum nr. 463/1998.

Smíði og búnaður

Farþegaskip skulu smíðuð og búin búnaði til samræmis við gildandi kröfur laga og reglna hverju sinni. Mismunandi kröfur eru gerðar eftir stærð, aldri, farþegafjölda, farsviði og starfsemi skipsins. Búnaður sem krafist er er m.a.: björgunar- og öryggisbúnaður, fjarskiptabúnaður og siglingatæki.

Neyðaráætlun

Áður en farþegaleyfi er gefið út þarf Samgöngustofa að samþykkja neyðaráætlun fyrir skipið sem koma skal fyrir á einum eða fleiri áberandi stöðum um borð.  Á neyðaráætlun skulu koma fram verkefni og skyldur sérhvers skipverja þegar neyðartilvik kemur upp, sbr. 3. gr. rg. um leyfi til farþegaflutninga með skipum nr. 463/1998.

Samþykkt teikning af fyrirkomulagi öryggisbúnaðar

Áður en farþegaleyfi er gefið út þarf Samgöngustofa að samþykkja teikningu af fyrirkomulagi öryggisbúnaðar skipsins sem komið verði fyrir á einum eða fleiri stöðum um borð, sbr. 3. gr. rg. um leyfi til farþegaflutninga með skipum nr. 463/1998.

Öryggisfræðsla fyrir farþega

Áður en farþegaleyfi er gefið út þarf Samgöngustofa að samþykkja áætlun um öryggisfræðslu fyrir farþega, sbr. 3. gr. rg. um leyfi til farþegaflutninga með skipum nr. 463/1998.

Öryggismönnun

Áður en farþegaleyfi er gefið út þarf Samgöngustofa að ákveða mönnun farþegaskipa og gefa út öryggismönnunarskírteini fyrir þau þar sem kveðið er á um lágmarksfjölda í áhöfn, samsetningu áhafnar og skírteini fyrir einstakar stöður. Manna skal sérhvert íslenskt farþegaskip á öruggan hátt svo að unnt sé að sinna öllum þáttum sem tryggja öryggi áhafnar, farþega og skips. Farþegaskip skal manna þannig að unnt sé að fylgja öllum lögum og reglum um verndun umhverfis, einkum er varðar mengunarvarnir sjávar og lífríkis.

Hámarksfjöldi farþega

Áður en farþegaleyfi er gefið út þarf Samgöngustofa að ákveða hámarksfjölda farþega sem leyfilegt er að hafa um borð, sbr. 4. gr. rg. um leyfi til farþegaflutninga með skipum nr. 463/1998. Slík ákvörðun byggir m.a. á stærð skips, farsviði og aðstæðum um borð.

Farsvið

Áður en farþegaleyfi er gefið út þarf Samgöngustofa að úthluta skipinu farsviði til samræmis við lög og reglur. Farsvið farþegaskipa er ætíð bundið þeim atvinnuréttindum sem skipstjórnarmenn skipsins hafa.

Útivist

Áður en farþegaleyfi er gefið út þarf Samgöngustofa að samþykkja hámarkstímalengd hverrar ferðar, sbr. 4. gr. rg. um leyfi til farþegaflutninga með skipum nr. 463/1998.

Tryggingar farþegaskipa

Trygging skal vera til staðar fyrir alla áhöfn og farþega farþegaskips. Kröfur um tegund tryggingar eru mismunandi eftir stærð, farsviði og starfsemi skips. Falli trygging úr gildi fellur farþegaleyfið jafnframt úr gildi.

Útgáfa farþegaleyfis

Þegar sýnt hefur verið fram á að fullnægt sé öllum skilyrðum skv. lögum og reglugerðum skal Samgöngustofa gefa út farþegaleyfi. Heimilt er að hafa farþegaleyfi á haffærisskírteini skipsins. Brot á skilyrðum leyfisins jafngilda broti á skilyrðum haffærisskírteinisins, sbr. 4. gr. rg. um leyfi til farþegaflutninga með skipum nr. 463/1998 Gildistími farþegaleyfis má aldrei vera lengri en gildistími haffæris skipsins eða gildistími tryggingar skipsins eftir því hvort styttra er.

Lögskráningar áhafnar farþegaskipa

Skylt er að lögskrá alla skipverja sem ráðnir eru til starfa á farþegaskipum, sbr. 2. gr. laga um lögskráningu sjómanna nr. 35/2010 og reglugerð um lögskráningu sjómanna nr. 817/2010.

Björgunar- og eldvarnaræfingar

Björgunar- og eldvarnaræfingar skal halda með reglulegu millibili samkvæmt þeim reglum sem í gildi eru um viðkomandi skip.

Tilkynningarskylda farþegaskipa

Öll farþegaskip sem notuð eru í atvinnuskyni skulu tilkynna sig á fimmtán mínútna fresti í gegnum sjálfvirkt tilkynningarkerfi skipa, sbr. 6. gr. laga um vaktstöð siglinga nr. 41/2003 og reglugerð um vaktstöð siglinga og eftirlit með umferð skipa nr. 80/2013 .

Atvinnuskírteini skipstjórnarmanna

Áhafnarmeðlimir skulu hafa atvinnuréttindi fyrir þá stöðu sem þeir gegna um borð að auki þurfa þeir að hafa lokið grunnnámskeiði í öryggisfræðslu. Skipstjórnarmenn þurfa að vera handhafar fjarskiptaskírteinis (ROC).

Öryggisfræðslunámskeið

Allir í áhöfn farþegaskips verða að hafa sótt öryggisfræðslunámskeið hjá Slysavarnaskóla sjómanna eða hafa fengið frest til að gangast undir slíkt námskeið, sbr. lög um lögskráningu sjómanna nr. 35/2010. 

Talning og skráning farþega

Talning farþega: Áður en farþegaskip lætur úr höfn skal telja alla einstaklinga um borð og tilkynna skipstjóra skipsins tilkynna nota viðeigandi tækniaðferð til að tilkynna þær upplýsingar í sameiginlega gagnagátt vaktstöðvar siglinga skv. reglugerðum skráningu einstaklinga sem sigla með farþegaskipum nr. 659/2000 með áorðnum breytingum. Nánar skilgreindar undanþágur eru unnt að veita frá skyldunni til samræmis við reglugerðina að uppfylltum skilyrðum.
Skráning farþega: Ef fyrirhuguð sigling farþegaskips er lengri en 20 sjómílur frá höfn skal skrá upplýsingar um nöfn allra einstaklinga um borð, kyn, þjóðerni og fæðingardag og hvort farþegi þurfi sérstaka umönnun eða aðstoð í neyðartilviki ef farþegi veitir þær upplýsingar sjálfviljugur. Þessum upplýsingum skal safnað fyrir brottför til­kynna þær í gegnum sameiginlega gagnagátt vaktstöðvar siglinga við brottför farþegaskipsins en eigi síðar en 15 mínútum eftir brottför þess.Samgöngustofu er heimilt að veita undanþágu fyrir farþegaskip sem fara áætlunarferðir á skýldum hafsvæðum á farsviði D eingöngu að ákveðnum skilyrðum uppfylltum skv. reglugerð um skráningu einstaklinga sem sigla með farþegaskipum nr. 659/2000

Áfengisveitingar

Sýslumenn veita veitingaleyfi og vínveitingaleyfi um borð í skipum. Sótt skal um til sýslumanns þar sem heimahöfn skips er skráð í Skipaskrá skv. skipalögum nr. 66/2021. Nánari upplýsingar um veitingaleyfi og vínveitingaleyfi má finna í lögum um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald nr. 85/2007 og hjá sýslumönnum.


Mengun frá skipum

Um varnir gegn mengun sjávar frá skipum gildir reglugerð nr. 586/2017 sem innleiðir MARPOL samninginn.

Vaktstöður

Skv. 7. gr. laga um áhafnir íslenskra farþegaskipa og flutningaskipa nr. 76/2001 skal skipstjóri tryggja að fyrirkomulag vakta sé á þann veg að ávallt sé staðin örugg vakt um borð, hvort sem skipið er á siglingu, í höfn, á legu eða við akkeri. Vaktir skulu þannig skipulagðar að þeir sem standa vakt séu ávallt vel hvíldir svo að ekki dragi úr árvekni þeirra.
Var efnið hjálplegt? Nei