Flutningaskip
Hér að neðan má finna lög og reglur um flutningaskip og rekstur þeirra. Ekki er um tæmandi lista að ræða. Ítarlegri upplýsingar er finna í lögum, reglum og skoðunarhandbókum.
Haffæri flutningaskips
Flutningaskip sæta lögboðnum skoðunargerðum á grundvelli laga nr. 47/2003, um eftirlit með skipum, með síðari breytingum. Almennar reglur um haffærisskírteini gilda um flutningaskip. Haffærisskírteini fyrir skip sem er minna en 20 brúttótonn skal ekki gefið út nema fyrir liggi yfirlýsing tryggingafélags um áhafnartryggingu skv. 2. mgr. 172. gr. siglingalaga nr. 34/1985.
Öryggisskírteini
Flutningaskip, 500 brl. og stærri, þurfa að fá útgefið út öryggisskírteini, á grundvelli viðeigandi skoðana skv. rgl. nr. 638/1983.
Smíði og búnaður
Um smíði og búnað flutningaskipa gilda reglur um vél- og rafbúnað vöruflutninga- og farþegaskipa, nr. 635/1985. Með reglunum eru ákvæði SOLAS-samþykktarinnar innleiddar að nokkru leyti og í þeim er m.a. mælt fyrir um austurdælur, rafala og stýrisbúnað flutningaskipa. Varðandi önnur atriði, og nánari útfærslu á atriðum reglnanna, segir í gr. 2.6 að fari eftir gildandi ákvæðum í reglum Samgöngustofu um raforku og raflagnir (rgl.28/1977) og ákvæðum í reglum hinna viðurkenndu flokkunarfélaga, ef viðkomandi skip er undir eftirliti einhvers þeirra.
Öryggis- og björgunarbúnaður
Um flutningaskip, 500 brl. og stærri, gilda reglur nr. 3/1987, um björgunar- og öryggisbúnað vöruflutninga- og farþegaskipa, og segir þar að um skipin skuli gilda ákvæði 3. kafla viðauka við alþjóðasamning um öryggi mannslífa á hafinu (SOLAS) 1974 með þeim breytingum sem gerðar voru a kaflanum 1983. Allur björgunar- og öryggisbúnaður og tengdur búnaður, þar með talin lögboðin siglingatæki, er háður viðurkenningu Samgöngustofu sbr. reglur nr. 189/1994. Sérhver bátur eða skip, sem undir reglurnar fellur, skal ávallt hafa um borð þann búnað sem krafist er skv. þeim og þann búnað, sem tilgreindur er fyrir viðkomandi stærð af skipi í tilsvarandi töflum í reglum nr. 189/1994, með síðari breytingum, sjá nánar 2. gr. reglna.
Skyldur skipstjóra: Skipstjóra ber að sjá um að allur öryggis- og björgunarbúnaður sé í lagi, að honum sé vel við haldið og sé ávallt tilbúinn til notkunar. Honum ber ennfremur að sjá svo um, að skipverjum sé leiðbeint um staðsetningu og notkun björgunar- og öryggistækja. Skipstjóra ber einnig að sjá svo um, að allar undan- og aðkomuleiðir, þ.m.t. neyðarútgangar að björgunartækjum skipsins, séu greiðfærar, sjá nánar 2. gr. reglna nr.189/1994.
Staðsetning björgunar og öryggisbúnaðar: Öllum björgunar- og öryggisbúnaði skal þannig komið fyrir um borð í skipum, að hann sé vel aðgengilegur, þurfi að grípa til hans. Staðsetning björgunar- og öryggistækja er háð samþykki Samgöngustofu. Þegar fyrirhuguð er nýsmíði skipa, breytingar á gömlu skipi, sem áhrif hefur á staðsetningu björgunar- og öryggisbúnaðar og neyðarútganga, eða innflutningur skips, skal senda Samgöngustofu til athugunar og samþykkis teikningu, er sýni gerð og staðsetningu björgunar- og öryggisbúnaðar skipsins, sjá nánar 2. gr. reglna nr. 189/1994.
Björgunarvesti og björgunarbúningar: Öll flutningaskip skulu búin björgunarvestum fyrir alla um borð. Óheimilt er að hafa í skipum óviðurkennd björgunarvesti, sjá nánar 3. gr. reglna nr. 189/1994.
Björgunarhringir: Öll skip skulu búin björgunarhringjum, einum eða fleiri, sjá nánar 4. gr. reglna nr. 189/1994 og tafla II og IV.
Björgunarför: Á flutningaskipum, sem gildandi alþjóðasamþykkt um öryggi mannslífa á hafinu, frá 1974, SOLAS 74, með áorðnum breytingum, nær til, skulu vera um borð björgunarför í samræmi við þá samþykkt, sjá nánar gr. 5.1. og 5.3. reglna nr. 189/1994.
Merking björgunarfara: Á hvern lífbát og slöngubjörgunarbát skal merkja með skýrum og varanlegum stöfum stærð bátsins og fjölda þeirra manna, sem báturinn er gerður fyrir. Þá skal skrá beggja megin á bóg bátsins nafn og heimahöfn skips þess, sem báturinn tilheyrir eða skipaskrárnúmer, sjá nánar 6. gr. reglna nr. 189/1994.
Losunar- og sjósetningarbúnaður gúmmíbjörgunarbáta: Á hvern lífbát og slöngubjörgunarbát skal merkja með skýrum og varanlegum stöfum stærð bátsins og fjölda þeirra manna, sem báturinn er gerður fyrir. Þá skal skrá beggja megin á bóg bátsins nafn og heimahöfn skips þess, sem báturinn tilheyrir eða skipaskránúmer, sjá nánar 7. gr. reglna nr. 189/1994 og III. viðauki.
Annar búnaður: Blys, flugeldar, línubyssa, ljóskastari, net til að ná manni úr sjó, lóðsstigi, stigi, merkingar brottfararstaða og undankomuleiða, sjá nánar 8. gr. reglna nr. 189/1994.
Eftirlit og viðhald björgunarfara: Öll björgunarför eru háð árlegu eftirliti Samgöngustofu. Gúmmíbjörgunarbátar skulu skoðaðir a.m.k. einu sinni á ári á sérstökum þjónustustöðvum, er hlotið hafa leyfi forstjóra Samgöngustofu til að annast eftirlit og viðhald gúmmíbjörgunarbáta, sjá nánar reglugerð um þjónustustöðvar gúmmíbjörgunarbáta, nr. 588/2002. og 9. gr. reglna nr. 189/1994.
Siglingatæki og sjókort: Flutningaskip skulu hafa áttavita og sjókort, sjá nánar 10. gr. reglna nr. 189/1994.
Siglingaljós, merki og öryggislitir: Flutningaskip skulu hafa siglinga- og merkjaljós þau sem alþjóðasiglingareglur gera ráð fyrir og enn fremur hin fyrirskipuðu dagmerki. Fyrirkomulag og styrkleiki siglingaljósa skal vera skv. alþjóðasiglingareglum, sjá nánar 11. gr. reglna nr. 189/1994.
Annar búnaður: Sjómannaalmanak, lög, leiðbeiningar, skrá yfir radíóvita, þjóðfáni, neyðaráætlun ofl., sjá nánar 12. gr. reglna nr. 189/1994.
Fjarskiptabúnaðu flutningaskipa
Flutningaskip þurfa að uppfylla ákvæði II. kafla laga reglugerðar um fjarskiptabúnað og fjarskipti íslenskra skipa, nr. 53/2000.
Öryggismönnun
Samgöngustofa þarf að ákveða mönnun flutningaskipa og gefa út öryggismönnunarskírteini fyrir þau, þar sem kveðið er á um lágmarksfjölda í áhöfn, samsetningu áhafnar og skírteini fyrir einstakar stöður. Manna skal sérhvert íslenskt flutningaskip á öruggan hátt svo að unnt sé að sinna öllum þáttum sem tryggja öryggi áhafnar og skips. Flutningaskip skal manna þannig að unnt sé að fylgja öllum lögum og reglum um verndun umhverfis, einkum er varðar mengunarvarnir sjávar og lífríkis. Við ákvörðun um fjölda skipverja á flutningaskipum skal Samgöngustofa taka fullt tillit til STCW alþjóðasamþykktarinnar og krafna hennar um siglingatíma, aldur, heilbrigði, menntun, þjálfun, hæfni og próf. Við mönnun flutningaskipa skal tekið sérstakt tillit til skipulags vakta um borð og nauðsynlegs hvíldartíma skipverja í samræmi við STCW alþjóðasamþykktina, sbr. 12. gr. laga um áhafnir farþega og flutningaskipa, nr. 76/2001 og rg. nr. 416/2003.
Farsvið
Áður en öryggismönnunarskírteini er gefið út þarf Samgöngustofa að samþykkja farsvið flutningaskipsins. Kröfur um menntun og hæfni o.fl. geta verið breytilegar eftir fyrirhuguðu farsviði skipsins. Farsvið flutningaskipa er ætíð bundið þeim atvinnuréttindum sem skipstjórnarmenn skipsins hafa. Ef atvinnuskírteini þeirra er takmarkað við strandsiglingar skv. lögum um áhafnir íslenskra farþegaskipa og flutningaskipa nr. 76/2001 er farsvið skipsins takmarkað við siglingu innan íslenskrar fiskveiðilögsögu (200 sjómílur) sbr. 14. tölul. 2. gr. laga um áhafnir íslenskra farþegaskipa og flutningaskipa nr. 76/2001.
Ábyrgð flutningaskipa
Samkvæmt 68. gr. siglingalaga nr. 34/1985 ber farmflytjanda almennt að bæta fyrir tjón sem hlýst af því að farmur skemmist eða glatast, nema hann geti sýnt fram á að tjónið hafi orðið vegna atvika sem hann fékk ekki ráðið við. Farmflytjandi ber jafnframt ábyrgð á tjóni sem leiðir af drætti af hans hálfu eða af því að skip ferst eða er dæmt óbætandi nema ætla megi að hvorki hann né neinn maður, sem hann ber ábyrgð á, eigi sök á tjóninu vegna yfirsjónar eða vanrækslu, sbr. 97. gr. siglingalaga. Útgerðarmaður flutningaskips ber ábyrgð á tjóni sem stafar af yfirsjónum eða vanrækslu í starfi hjá skipstjóra, skipshöfn, hafnsögumanni eða öðrum sem starfa í þágu skips. Nú hefur útgerðarmaður greitt bætur af þessum sökum og getur hann þá endurkrafið þann, er valdur var að tjóninu, um bótaupphæðina, að því marki sem lög heimila, sbr. IX. kafli siglingalaga nr. 34/1985 um ábyrgð útgerðarmanns og takmörkun ábyrgðar. Útgerðarmanni er skv. 172. gr. siglingalaga skylt að kaupa tryggingar fyrir slysa og dánarbótum vegna lífs eða líkamstjóns þeirra sem ráðnir eru í skiprúm hjá honum.
Lögskráning áhafnar
Skylt er að lögskrá alla skipverja sem ráðnir eru til starfa á flutningaskipum, sbr. 2. gr. laga um lögskráningu sjómanna nr. 35/2010 og reglugerð um lögskráningu sjómanna nr. 817/2010.
Björgunar- og eldvarnaræfingar
Samkvæmt reglum 636/1983 um eldvarnir í vöruflutningaskipum, skal halda eldvarnaræfingar a.m.k. tvisvar á ári, þar sem eldvarnarbúnaður skipsins er prófaður og áhöfnin fær tækifæri til þess að fá þjálfun í meðferð hans og notkun, auk réttra viðbragða við eldsvoða. Björgunar- og eldvarnaræfingar skulu færðar í eftirlitsbók skips, sbr. 13. gr. reglna nr. 189/1994.
Tilkynningarskylda
Öll flutningaskip skulu tilkynna sig á fimmtán mínútna fresti í gegnum sjálfvirkt tilkynningarkerfi skipa, sbr. 6. gr. laga um vaktstöð siglinga nr. 41/2003 og reglugerð um vaktstöð siglinga og eftirlit með umferð skipa, nr. 672/2006.
Atvinnuskírteini skipstjórnarmanna
Flutningaskip 30 brl. eða minna: Skipstjóri og stýrimaður verða að hafa gilt atvinnuskírteini sem skipstjóri á skipi sem er 30 rúmlestir eða minna, sbr. 7. gr. laga um atvinnuréttindi skipstjórnarmanna á íslenskum skipum nr. 112/1984 með síðari breytingum og 5. gr. reglugerðar um atvinnuskírteini skipstjórnar- og vélstjórnarmanna nr. 118/1996 með breytingum nr. 207/1998 og nr. 416/2004. Sjá jafnframt reglugerð um nám til skipstjórnarréttinda á skipi sem er 30 brúttótonn eða minna, nr. 531/2001.
Flutningaskip 65 brúttótonn eða minna í innanlandssiglingum: Skipstjóri og stýrimaður verða að hafa gilt atvinnuskírteini sem skipstjóri á skipi sem er 30 rúmlestir eða minna (sjá að ofan) í innanlandssiglingum, 9. gr. laga um áhafnir íslenskra farþegaskipa og flutningaskipa nr. 76/2001.
Flutningaskip minna en 500 brúttótonn í strandsiglingum: Skipstjóri verður að hafa gilt atvinnuskírteini sem skipstjóri á farþegaskipum og flutningaskipum í strandsiglingum, sbr. 11. gr. laga um áhafnir íslenskra farþegaskipa og flutningaskipa nr. 76/2001 og reglugerðar um áhafnir íslenskra farþegaskipa og flutningaskipa nr. 416/2003, sbr. og III. viðauka. Yfirstýrimaður/stýrimaður verður að hafa gilt atvinnuskírteini sem slíkur á farþegaskipum og flutningaskipum í strandsiglingum, sbr. 11. gr. laga um áhafnir íslenskra farþegaskipa og flutningaskipa nr. 76/2001 og samnefndrar reglugerðar nr. 416/2003, sbr. og III. viðauka.
Atvinnuskírteini vélstjórnarmanna
Farþegaskip með aðalvél 375 kW og minni: Vélstjóri verður að hafa gilt atvinnuskírteini sem vélstjóri á farþegaskipum og flutningaskipum með aðalvél 375 kW og minni, sbr. 11. gr. laga nr. 76/2001 og reglugerðar um áhafnir íslenskra farþegaskipa og flutningaskipa nr. 416/2003, sbr. og III. viðauka.
Farþegaskip með aðalvél 375-750 kW: Vélstjóri verður að hafa gilt atvinnuskírteini sem vélstjóri á farþegaskipum og flutningaskipum með aðalvél minni en 750 kW, sbr. 11. gr. laga nr. 76/2001 og reglugerðar um áhafnir íslenskra farþegaskipa og flutningaskipa nr. 416/2003, sbr. og III. viðauka.
Farþegaskip með aðalvél 751-1500 kW: Yfirvélstjóri verður að hafa gilt atvinnuskírteini sem yfirvélstjóri á skipi með 1500 kW vél og minni (VS I) skv. lögum um atvinnuréttindi vélfræðinga, vélstjóra og vélavarða á íslenskum skipum nr. 113/1984 og hafa lokið 3. stigi vélskóla, sbr. 8. gr. reglugerðar um atvinnuskírteini skipstjórnar- og vélstjórnarmanna nr. 118/1996 með breytingum nr. 207/1998 og nr. 416/2004. Fyrsti vélstjóri verður að hafa gilt atvinnuskírteini sem 1. vélstjóri á skipi með 1500 kW vél og minni (VS II) skv. lögum um atvinnuréttindi vélfræðinga, vélstjóra og vélavarða á íslenskum skipum nr. 113/1984 og hafa lokið 3. stigi vélskóla, sbr. 8. gr. reglugerðar um atvinnuskírteini skipstjórnar- og vélstjórnarmanna nr. 118/1996 með breytingum nr. 207/1998 og nr. 416/2004.
Farþegaskip með aðalvél 1501-3000 kW: Yfirvélstjóri verður að hafa gilt atvinnuskírteini sem vélstjóri á farþegaskipum og flutningaskipum með aðalvél minni en 3000 kW, sbr. 11. gr. laga nr. 76/2001 og reglugerðar um áhafnir íslenskra farþegaskipa og flutningaskipa nr. 416/2003, sbr. og III. viðauka. Fyrsti vélstjóri verður að hafa gilt atvinnuskírteini sem 1. vélstjóri á farþegaskipum og flutningaskipum með aðalvél minni en 3000 kW, sbr. 11. gr. laga nr. 76/2001 og reglugerðar um áhafnir íslenskra farþegaskipa og flutningaskipa nr. 416/2003, sbr. og III. viðauka.
Farþegaskip með aðalvél stærri en 3000 kW: Yfirvélstjóri verður að hafa gilt atvinnuskírteini sem vélstjóri á farþegaskipum og flutningaskipum með ótakmarkaða vélarstærð, sbr. 11. gr. laga nr. 76/2001, eða sambærilegt gilt atvinnuskírteini skv. eldri lögum, þ. e. lögum um atvinnuréttindi vélfræðinga, vélstjóra og vélavarða á íslenskum skipum nr. 113/1984, sem yfirvélstjóri á skipi með ótakmarkaða vélarstærð (VF I) og hafa lokið 4. stigi vélskóla, sbr. 8. gr. reglugerðar um atvinnuskírteini skipstjórnar- og vélstjórnarmanna nr. 118/1996 með breytingum nr. 207/1998 og nr. 416/2004. Fyrsti vélstjóri verður að hafa gilt atvinnuskírteini sem 1. vélstjóri á farþegaskipum og flutningaskipum með ótakmarkaða vélarstærð, sbr. 11. gr. laga nr. 76/2001 eða sambærilegt gilt atvinnuskírteini skv. eldri lögum, þ. e. lögum um atvinnuréttindi vélfræðinga, vélstjóra og vélavarða á íslenskum skipum nr. 113/1984, sem 1. yfirvélstjóri á skipi með ótakmarkaða vélarstærð (VF II) og hafa lokið 4. stigi vélskóla, sbr. 8. gr. reglugerðar um atvinnuskírteini skipstjórnar- og vélstjórnarmanna nr. 118/1996 með breytingum nr. 207/1998 og nr. 416/2004.
Öryggisfræðslunámskeið
Allir í áhöfn flutningaskips verða að hafa sótt öryggisfræðslunámskeið hjá Slysavarnaskóla sjómanna eða hafa fengið frest til að gangast undir slíkt námskeið, sbr. lög um lögskráningu sjómanna nr. 35/2010. Allir sem starfa á farþegaskipum verða að hafa sótt námskeið um farþegaflutninga með skipum og stjórnun mannfjölda á neyðarstundu, sbr. ákvæði til bráðabirgða með lögum nr. 76/2001 og 3. mgr. 9. gr. sömu laga.
Útgáfa og gildistími atvinnuskírteina
Samgöngustofa gefur út alþjóðleg skírteini og áritanir skv. 1. mgr. 4. gr. laga um áhafnir íslenskra farþegaskipa og flutningaskipa nr. 76/2001. Skírteini skulu rituð á þar tilgerð eyðublöð eftir fyrirmynd sem samgönguráðuneytið ákveður og skulu þau vera bæði á íslensku og ensku. Útgáfa alþjóðlegra skírteina skal vera samkvæmt viðurkenndu gæðastjórnunarkerfi. Frumrit skírteinis sem krafist er skal ávallt vera um borð í því skipi sem skírteinishafi er skráður eða ráðinn á. Samgöngustofa heldur skrá yfir útgefin skírteini, sbr. 7. og 8. mgr. 4. gr. laga nr. 76/2001. Samkvæmt 5. gr. laga um áhafnir íslenskra farþegaskipa og flutningaskipa nr. 76/2001 gilda skírteini í fimm ár frá útgáfudegi. Endurnýjun skal veitt til fimm ára í senn. Við endurnýjun skírteina skal umsækjandi sem hefur skírteini og starfar á sjó eða ætlar að hverfa aftur til starfa á sjó eftir nokkurn tíma í landi:
1. Fullnægja sömu heilbrigðiskröfum og áður þurfti til að öðlast skírteini.
2. Hafa að baki siglingatíma í stöðu sem skírteini veitir honum rétt til að minnsta kosti í eitt ár á síðustu fimm árum.
3. Með því að hafa verið í starfi sem samsvarar viðkomandi skírteini og telst að minnsta kosti sambærilegt við siglingatíma sem krafist er skv. 2. tölul. eða með því að:
a. Standast viðurkennt próf.
b. Ljúka á fullnægjandi hátt viðurkenndu námskeiði.
c. Hafa siglingatíma sem yfirmaður í a.m.k. þrjá mánuði í næstu lægri stöðu sem hann á tilkall til samkvæmt skírteini sínu.
Endurmenntunarnámskeið samkvæmt þessari grein skulu samþykkt af Samgöngustofu og skal á þeim m.a. farið yfir nýlegar breytingar á alþjóðareglum um öryggi mannslífa á sjó og varnir gegn mengun sjávar.
Gildistími íslenskra atvinnuskírteina: Sýslumenn úti á landi og tollstjórinn í Reykjavík gefa út íslensk atvinnuskírteini, sbr. 1. mgr. 4. gr. laga um áhafnir íslenskra farþegaskipa og flutningaskipa nr. 76/2001, 2. mgr. 13. gr. laga um atvinnuréttindi skipstjórnarmanna á íslenskum skipum nr. 112/1984 og 3. mgr. 9. gr. laga um atvinnuréttindi vélfræðinga, vélstjóra og vélavarða á íslenskum skipum nr. 113/1984. Áður en atvinnuskírteini er gefið út skal leita staðfestingar Samgöngustofu um réttindi umsækjanda um atvinnuskírteini. Skírteini skulu rituð á þar tilgerð eyðublöð eftir fyrirmynd sem samgönguráðuneytið semur. Skírteinin skulu gefin út á íslensku og ensku og gilda í fimm ár í senn. Samgönguráðherra setur reglur um skilyrði til endurnýjunar atvinnuskírteina, svo sem um viðhald réttinda og heilsufar, þar sem taka skal mið af alþjóðasamþykkt um þjálfun, skírteini og vaktstöður sjómanna frá 1978, eftir því sem við á, 3. mgr. 13. gr. laga um atvinnuréttindi skipstjórnarmanna á íslenskum skipum nr. 112/1984 og 3. mgr. 9. gr. laga um atvinnuréttindi vélfræðinga, vélstjóra og vélavarða á íslenskum skipum nr. 113/1984.
Skilyrði fyrir útgáfu atvinnuskírteinis
Íslenskur ríkisborgari eða EES-borgari: Íslenskur ríkisborgari sem fullnægir skilyrðum laga nr. 76/2001 og reglugerða settra samkvæmt þeim um menntun og þjálfun, aldur, siglingatíma, heilbrigði, sjón og heyrn á rétt á því að fá útgefið viðeigandi skírteini sér til handa skv. 11. gr. laganna og starfa samkvæmt því um borð í skipum. Þennan rétt hafa einnig ríkisborgarar annarra ríkja Evrópska efnahagssvæðisins, sbr. 2. mgr. 6. gr. laga nr. 76/2001. Skipstjóri á íslensku skipi skal ávallt vera íslenskur ríkisborgari. Þó geta ríkisborgarar annarra ríkja á Evrópska efnahagssvæðinu starfað sem skipstjórar á íslenskum skipum hafi þeir staðist sérstakt próf um kunnáttu og færni í íslensku og þekkingu á íslenskum lögum og reglum er varða þau störf sem þeir fá réttindi til að gegna, sbr. 5. mgr. 4. gr. laga nr. 76/2001.
Menntun og þjálfun: Samkvæmt 3. gr. laga um áhafnir íslenskra farþegaskipa og flutningaskipa nr. 76/2001 annast sjómannaskólar menntun og þjálfun áhafna íslenskra skipa. Um inntökuskilyrði sjómannaskóla, námskrá, nám, námstilhögun, námsmat og námsstig til öflunar tiltekinna skírteina samkvæmt lögum þessum fer eftir
lögum um framhaldsskóla og reglugerðum settum samkvæmt þeim. Nám og kennsla í sjómannaskólum skal vera samkvæmt viðurkenndu gæðastjórnunarkerfi. Starfsgreinaráð um sjávarútvegsgreinar og siglingar, sem starfar samkvæmt lögum um framhaldsskóla, gerir tillögu til menntamálaráðherra, að fenginni umsögn Samgöngustofu, um námskrár sjómannaskóla. Sjá vefsíðu
Tækniskólans. Um
Slysavarnaskóla sjómanna gilda lög nr. 33/1991 og staðfestir samgönguráðherra námskrá skólans. Menntamálaráðuneytið hefur eftirlit með að námskrár sjómannaskóla uppfylli kröfur alþjóðasamninga og þá hefur Samgöngustofa eftirlit með að nám við sjómannaskóla uppfylli kröfur alþjóðasamninga.
Aldur: Aldursskilyrði koma fram í 11. gr. laga um áhafnir íslenskra farþegaskipa og flutningaskipa nr. 76/2001 og eru frá 16 til 20 ára eftir því um hvers konar skírteini er að ræða.
Siglingatími: Umsækjandi skírteinis skal hafa að baki siglingatíma skv. 11. gr. laga nr. 76/2001, sbr. 3. mgr. 4. gr. Ráðherra getur með reglugerð vikið frá kröfum 11. gr. og gert vægari kröfur um siglingatíma sbr. 11. gr. reglugerðar nr 416/2003. Umsækjanda er skylt að færa sönnur á siglingatíma sem hann telur sig hafa að baki. Unnt er að færa sönnur á þann siglingatíma með staðfestingu lögskráningarstjóra eða rétt útfylltri sjóferðabók. Umsækjandi skírteinis sem kveðst hafa að baki siglingatíma á skipi sem ekki er skráð á Íslandi skal færa sönnur á þann siglingatíma á fullnægjandi hátt að mati Samgöngustofu. Ef vafi leikur á um réttmæti þeirrar sönnunar skal Samgöngustofa í því tilviki skera úr um siglingatíma.
Heilbrigði, sjón og heyrn: Umsækjandi um skírteini skipstjórnarmanns eða vélstjórnarmanns skal vera svo heill heilsu að hann geti rækt störf sín af öryggi, sbr. 4. mgr. 4. gr. laga um áhafnir íslenskra farþegaskipa og flutningaskipa nr. 76/2001. Skal umsækjandi leggja fram vottorð læknis um að hann uppfylli skilyrði um sjón, heyrn og aðrar heilbrigðiskröfur sem ráðherra mælir nánar fyrir um í reglugerð til samræmis við skuldbindingar íslenska ríkisins í þeim samningum sem um er getið í 3. mgr. 1. gr. laganna. Um heilbrigðiskröfur gilda nú ákvæði I. viðauka reglugerðar nr. 416/2003.
Íslenskukunnátta og skil á lögum og reglum: Yfirmenn á stjórnunarsviði, þ.e. skipstjóri, yfirstýrimaður, yfirvélstjóri og 1. vélstjóri, skulu hafa þekkingu á íslenskum lögum og reglum sem varða störf þeirra og tryggt skal að þeir geti tjáð sig á íslensku eða ensku um ábyrgðarsvið sitt.
Undanþágur
Í undantekningartilfellum og þegar menn með tilskilin skírteini vantar til starfa getur Samgöngustofa, telji hún að öryggi mannslífa, eigna eða umhverfis verði ekki stefnt í hættu, veitt tilteknum manni undanþágu til að gegna stöðu á tilteknu skipi í tiltekinn tíma hafi hann ekki tilskilin réttindi. Undanþágu í umrædda stöðu má þó ekki veita lengur en til sex mánaða, enda sé viðkomandi að mati Samgöngustofu hæfur til að annast starfið á öruggan hátt. Undanþáguna má aðeins veita þeim sem hefur skírteini til að gegna næstu lægri stöðu. Ef ekki er krafist skírteinis í næstu stöðu fyrir neðan má veita þeim undanþágu sem að mati Samgöngustofu hefur til þess þekkingu og reynslu. Undanþágu má ekki veita til að gegna stöðu skipstjóra eða yfirvélstjóra á farþegaskipum nema í neyðartilvikum og þá aðeins í eins skamman tíma og unnt er, sjá 8. gr. laga nr. 76/2001 og 8. gr. rg. nr. 416/2003 ásamt IV. viðauka.
Skráning og talning farþega
Talning farþega: Áður en farþegaskip lætur úr höfn skal telja alla einstaklinga um borð og tilkynna skipstjóra skipsins og umsjónarmanni farþegaskráningar fyrirtækisins í landi um fjölda einstaklinga um borð. Samgöngustofa er heimilt að veita undanþágu fyrir farþegaskip sem fara áætlunarferðir á skýldum hafsvæðum eingöngu og taka innan við klst. milli hafna, sbr. 4. og 1. mgr. 9. gr. rg. um skráningu einstaklinga sem sigla með farþegaskipum nr. 659/2000.
Skráning farþega: Ef fyrirhuguð sigling farþegaskips er lengri en 20 sjómílur frá höfn skal skrá upplýsingar um nöfn allra einstaklinga um borð, kyn, aldursflokk og hvort farþegi þurfi sérstaka umönnun eða aðstoð. þessum upplýsingum skal safnað fyrir brottför og senda umsjónarmanni farþegaskráningar fyrirtækisins í landi í síðasta lagi 30 mínútum eftir brottför. Samgöngustofu er heimilt að veita undanþágu fyrir farþegaskip sem fara áætlunarferðir á skýldum hafsvæðum eingöngu að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, sbr. 5. og 9. gr. rg. um skráningu einstaklinga sem sigla með farþegaskipum nr. 659/2000.
Áfengisveitingar
Samkvæmt 15. gr. áfengislaga nr. 75/1998 skal sækja um leyfi til áfengisveitinga um borð í skráningarskyldu skipi til sveitarstjórnar í því sveitarfélagi þar sem heimahöfn skipsins er samkvæmt lögum um skráningu skipa nr. 115/1985. Leyfi til áfengisveitinga verður einungis veitt þeim sem uppfyllir skilyrði laga um veitinga- og gististaði til að fá útgefið veitingaleyfi. Skv. 16. gr. sömu laga skal áður en veitt er leyfi til áfengisveitinga um borð í skipi skal leita umsagnar Samgöngustofu. Sé leyfi veitt nær það einungis til áfengisveitinga um borð í skipulögðum hópferðum innan landhelgi. Nánari ákvæði eru í 13. gr. rg. um smásölu og veitingar áfengis nr. 177/1999. Forsenda leyfis til áfengisveitinga er að skipið hafi farþegaleyfi frá Samgöngustofu.
Mengun frá skipum
Um varnir gegn mengun sjávar frá skipum fer eftir lögum nr. 33/2004 og reglugerð nr. 715/1995. Um sorpmengun frá skipum fer eftir reglugerð 801/2004. Um viðbrögð við bráðamengun sjávar fer eftir reglugerð nr. 465/1998 með breytingu nr. 203/1999.
Vaktstöðvar
Samkvæmt 7. gr. laga um áhafnir íslenskra farþegaskipa og flutningaskipa nr. 76/2001 skal skipstjóri tryggja að fyrirkomulag vakta sé á þann veg að ávallt sé staðin örugg vakt um borð, hvort sem skipið er á siglingu, í höfn, á legu eða við akkeri. Undir yfirumsjón skipstjóra eru stýrimenn ábyrgir fyrir öruggri siglingu skipsins á sinni vakt og ber þeim sérstaklega að varast árekstur og strand. Yfirvélstjóri er ábyrgur fyrir öruggri vakt í vélarrúmi og skal tryggja að vélstjóri sé tiltækur til að gegna vakt í ómönnuðu vélarrúmi og standa þar vaktir ef þörf krefur. Þeir sem gegna starfi fjarskiptamanns eru á sinni vakt ábyrgir fyrir samfelldri hlustun á viðeigandi tíðnum. Vaktir skulu þannig skipulagðar að þeir sem standa vakt séu ávallt vel hvíldir svo að ekki dragi úr árvekni þeirra. Sérstaklega skal þessa gætt við fyrstu vakt og í upphafi sjóferðar. Innanríkisráðherra setur reglugerð um vaktir og hvíldartíma þeirra sem standa vaktir, sjá reglugerð um vaktstöður um borð í íslenskum farþegaskipum og flutningaskipum, nr. 599/2001.