Björgunar- og öryggisbúnaður

Hér má finna upplýsingar um helstu atriði er varða björgunar- og öryggisbúnað skipa og báta

Björgunar- og öryggisbúnaður

Allur björgunar- og öryggisbúnaður og tengdur búnaður, þ.m.t. lögboðin siglingatæki, er háður viðurkenningu Samgöngustofu. Sérhver bátur eða skip, sem undir þessar reglur fellur, skal ávallt hafa um borð þann búnað sem krafist er skv. reglum þessum og þann búnað, sem tilgreindur er fyrir viðkomandi stærð af skipi í tilsvarandi töflum í reglum nr. 189/1994, með síðari breytingum, sjá nánar 2. gr. 

Skyldur skipstjóra

Skipstjóra ber að sjá um að allur öryggis- og björgunarbúnaður sé í lagi, að honum sé vel viðhaldið og sé ávallt tilbúinn til notkunar. Honum ber enn fremur að sjá svo um, að skipverjum sé leiðbeint um staðsetningu og notkun björgunar- og öryggistækja. Skipstjóra ber einnig að sjá svo um, að allar undan- og aðkomuleiðir, þ.m.t. neyðarútgangar að björgunartækjum skipsins, séu greiðfærar, sjá nánar 2. gr. reglna nr.189/1994.

Staðsetning björgunar og öryggisbúnaðar 

Öllum björgunar- og öryggisbúnaði skal þannig komið fyrir um borð í skipum, að hann sé vel aðgengilegur, þurfi að grípa til hans. Staðsetning björgunar- og öryggistækja er háð samþykki Samgöngustofu. Þegar fyrirhuguð er nýsmíði skipa, breytingar á gömlu skipi, sem áhrif hefur á staðsetningu björgunar- og öryggisbúnaðar og neyðarútganga, eða innflutningur skips, skal senda Samgöngustofu til athugunar og samþykkis teikningu, er sýni gerð og staðsetningu björgunar- og öryggisbúnaðar skipsins, sjá nánar 2. gr. reglna nr. 189/1994.

Björgunarvesti og björgunarbúningar

Öll farþegaskip skulu búin björgunarvestum fyrir alla um borð. Óheimilt er að hafa í skipum óviðurkennd björgunarvesti, sjá nánar 3. gr. reglna nr. 189/1994 og tafla II og IV. Um fiskiskip sem eru 15 m að lengd eða lengri fer eftir reglugerð nr. 122/2004 , en skv. 8. reglu VII. kafla I. viðauka skulu vera björgunarvesti fyrir sérhvern mann um borð, af samþykktri gerð sem uppfyllir ákvæði 24. reglu kaflans.

Björgunarhringir

Öll skip skulu búin björgunarhringjum, einum eða fleiri, sjá nánar 4. gr. reglna nr. 189/1994 og töflur II og IV.  (fiskiskip <15 m) og 10. reglu VII. k. I. viðauka  rg. 122/2004, um lágmarksfjöldi björgunarhringja eftir lengd skips.

Björgunarför

Á farþegaskipum, sem gildandi alþjóðasamþykkt um öryggi mannslífa á hafinu, frá 1974, SOLAS 74, með áorðnum breytingum, nær til, skulu vera um borð björgunarför í samræmi við þá samþykkt, sjá nánar gr. 5.1. og 5.4. reglna nr. 189/1994 og töflu I og IV um búnað björgunarfara.

Um björgunarför fiskiskipa <15 m fer eftir lið 5.2 í reglum nr. 189/1994, t.d. skal fiskiskip styttri en 12 m vera búið fari sem rúmar a.m.k. alla skipverja, og skip 12-30 m skal vera búið tveimur eða fleiri bátum, sem samanlagt rúma minnst tvöfaldan fjölda skipverja.

Um fiskiskip sem eru 15 m að lengd eða lengri fer eftir reglugerð 122/2004, og fjallað er um fjölda og gerð fara í 5. reglu VII. k. I. viðauka, t.d. skal nýtt fiskiskip, styttra en 45 m, vera búið björgunarförum við hvora hlið skipsins sem til samans eru nægilega stór til að rúma heildarfjölda þeirra manna sem eru um borð í skipinu. Í 17.-23. gr. kaflans má lesa um kröfur til lífbáta og björgunarfleka, m.a. um fastan búnað, vélbúnað þeirra og stöðugleika.

Merking björgunarfara

Á hvern lífbát og slöngubjörgunarbát skal merkja með skýrum og varanlegum stöfum stærð bátsins og fjölda þeirra manna sem báturinn er gerður fyrir. Þá skal skrá beggja megin á bóg bátsins nafn og heimahöfn skips þess, sem báturinn tilheyrir eða skipaskrárnúmer, sjá nánar 6. gr. reglna nr. 189/1994. Um fiskiskip sem eru 15 m að lengd eða lengri fer eftir reglugerð 122/2004, og gildir 9. tl. 17. reglu VII. k. I. viðauka um merkingu björgunarfara, skv. 6. tl. 5. reglu kaflans, skal merkja nafn, heimahöfn,  helstu mál bátsins og þann fjölda manna sem honum er heimilt að bera. Jafnframt skal hann merktur þannig að úr lofti megi sjá hvaða skipi lífbáturinn tilheyrir, svo og númer bátsins.

Losunar- og sjósetningarbúnaður gúmmíbjörgunarbáta

Flutningaskip og þau skip, sem falla undir ákvæði alþjóðasamþykktar um öryggi mannslífa á hafinu frá árinu 1974, með síðari breytingum (SOLAS), skulu vera búin losunarbúnaði á gúmmíbjörgunarbátum í samræmi við reglu III/38.6 í SOLAS (sjá II. viðauka).

Farþegaskip, önnur en þau sem falla undir gr. 7.1.1., skulu vera með losunarbúnað þar sem unnt er að losa gúmmíbjörgunarbátana frá skipinu með einu handtaki á staðnum. Enn fremur skulu gúmmíbjörgunarbátarnir vera tengdir losunarbúnaði sem losar þá frá skipinu fyrir áhrif sjávar og fjarstýrðum búnaði sem einnig losar bátana frá skipinu með einu handtaki frá stjórnpalli eða öðrum hentugum stað. 

Sjá nánar 7. gr. reglna nr. 189/1994 og III. viðauki.

Annar búnaður

Blys, flugeldar, línubyssa, ljóskastari, net til að ná manni úr sjó, lóðsstigi, stigi, merkingar brottfararstaða og undankomuleiða, sjá nánar 8. gr. reglna nr. 189/1994 og töflu II og IV fyrir farþegaskip en  töflu II og III, fyrir skip < 15 m. Um fiskiskip sem eru 15 m að lengd eða lengri fer eftir reglugerð 122/2004, og er í 11.-15. reglur VII. kafla m.a. mælt fyrir um línubyssu, flugelda, fjarskiptastöðvar og endurköstunarbúnað. Mælt er fyrir um lóðsstiga í 7. reglur X. kafla, fyrir skip > 45 m.

Eftirlit og viðhald björgunarfara

Öll björgunarför eru háð árlegu eftirliti Samgöngustofu. Gúmmíbjörgunarbátar skulu skoðaðir a.m.k. einu sinni á ári á sérstökum þjónustustöðvum, er hlotið hafa leyfi siglingamálastjóra til að annast eftirlit og viðhald gúmmíbjörgunarbáta, sjá nánar reglugerð um þjónustustöðvar gúmmíbjörgunarbáta, nr. 588/2002. og 9. gr. reglna nr. 189/1994.



Var efnið hjálplegt? Nei