Algengar spurningar

Hér má finna svör við algengum spurningum um skemmtibáta

Hvað er CE-merking?

CE-merking vísar til þess að framleiðsla sé  í samræmi við ESB-reglur. Allir skemmti­bátar verða að vera CE-merktir áður en þeir eru settir á markað eða teknir í notkun innan Evrópska efnahagssvæðisins (EES).

Ef skemmtibátur er keyptur í landi sem ekki er hluti af EES, er hann CE-merktur? 

Bátur sem keyptur eru notaður frá landi utan EES er að öllum líkindum ekki CE-merktur, þar sem CE-merki eru hluti af kerfi sem notað er innan ESB/EES.

Skoða þarf hvern einstakan bát til þess að komast að því hvort hann er CE-merktur. 

Ég er að hugsa um að kaupa skemmtibát sem ekki er CE-merktur, frá landi utan EES. Hver getur hjálpað mér að CE-merkja hann?

Sá sem flytur inn skemmtibát sem ekki er með CE-merki, er ábyrgur fyrir því að hann verði merktur á réttan hátt.

Samgöngustofa CE-merkir ekki báta, en sem eftirlitsaðili fylgist stofnunin með því að bátar séu framleiddir í samræmi við gildandi reglur. Áður en bátur er tollafgreiddur verður Samgöngustofa að staðfesta að hann sé CE-merktur og uppfylli þær kröfur sem gerðar eru til slíkra báta.

Fá þarf tilkynntan aðila til þess að taka út bátinn.

Ég er að hugsa um að kaupa skemmtibát frá Grikklandi, sem var framleiddur árið 2001 og er ekki CE-merktur. Er hann undanskilinn kröfum um CE-merki?

Nei, skemmtibáturinn verður að vera CE-merktur þegar hann er fluttur inn eða tekinn í notkun á EES-svæðinu.

Hvað kostar að CE-merkja skemmtibát?

Það getur verið mjög kostnaðarsamt, en er þó misjafnt eftir bátum og þeim tækniskjölum sem með honum fylgja.

Hvað gerist ef ég kaupi skemmtibát í útlöndum sem ekki er CE-merktur, og læt koma með hann til Íslands?

Skemmtibátar sem ekki eru CE-merktir verða stoppaðir í tolli. Eigandi bátsins getur þá valið um hvort hann lætur CE-merkja hann eða flytja hann út fyrir Evrópska efnahags­svæðið.

Hvernig læt ég CE-merkja innfluttan skemmtibát?

Að framkvæma CE-merkingu á skemmtibát getur verið mjög flókið og þarf liðsinni tilkynnts aðila við merkinguna. Til að mynda þarf að leggja fram fullnægjandi tæknileg skjöl fyrir bátinn, handbók eiganda og sam­ræmisyfirlýsingu þess sem setur skemmtibátinn á markað innan EES (t.d. með innflutningi hans). Þar eiga að koma fram upplýsingar um samræmi bátsins við kröfur skemmtibátareglugerðarinnar, nýtt auðkennisplötu- og kenninúmer (HIN).

Hvar finnur maður kröfurnar sem gerðar eru til tækniskjala?

Í reglugerð um hönnun og framleiðslu skemmtibáta og einmenningsfara nr. 130/2016 – 6.gr. Auk þess eru í kafla H í RSG – leiðbeiningunum (The Recreational Craft Sectoral Group) frekari upplýsingar um kröfur til tækniskjala.

Hversu langan tíma tekur að fá CE-merki á skemmtibát?

Það getur verið misjafnt eftir bátsgerð, fyrirliggjandi tækniskjölum og þeim sem sér um CE-merkinguna. Til dæmis getur verið að tilkynnti aðilinn sem fenginn er til verksins hafi mikla reynslu af skoðun viðkomandi bátstegundar, og þá ætti skoðunin að vera bæði ódýrari og fljótlegri.

Verður skemmtibátur sem fluttur er frá Kína eða öðru landi sem ekki er innan Evrópska efnahagssvæðisins (EES), sem var framleiddur í Hollandi árið 1994, að vera CE-merktur?

Skemmtibátur sem sannanlega var framleiddur innan EES fyrir 16. júní 1998 þarf ekki að vera CE-merktur, því hann er settur á markað áður en krafan um CE-merkingu tók gildi. Það stendur ekki í vegi fyrir innflutningi slíks báts þótt hann hafi verið notaður utan EES í millitíðinni. En báturinn þarf í þessu tilfelli að uppfylla Norðurlandareglur um skemmtibáta.

Ég var að hugsa um að flytja inn bát frá Noregi, sem var framleiddur í Bandaríkjunum árið 1997 og seldur í Noregi sama ár. Þarf að CE-merkja hann?

Skemmtibátur sem sannanlega var fluttur til Noregs árið 1997, þ.e. áður en skylt var að CE-merkja skemmtibáta innan EES, má flytja inn þótt hann sé ekki CE-merktur. Skylt var að CE-merkja skemmtibáta sem komu inn á Evrópska efnahagssvæðið frá og með 16. júní 1998. En báturinn þarf  í þessu tilfelli að uppfylla Norðurlandareglur um skemmtibáta.

Ég hafði hugsað mér að flytja til landsins 50 feta seglbát. Báturinn er smíðaður í Grikklandi árið 1993 og skráður í Bandaríkjunum. Þarf að CE-merkja hann?

Ekki er krafa um CE-merkingu skemmtibáta sem sannanlega voru framleiddir innan Evrópska efnahagssvæðisins áður en krafan um CE-merkingu skemmtibáta tók gildi, þann 16. júní 1998. En báturinn þarf í þessu tilfelli að uppfylla Norðurlandareglur um skemmtibáta.

Ég er búinn að búa í Bandaríkjunum í tíu ár. Þarf ég að láta CE-merkja skemmtibátinn minn, sem er '94 árgerð?

Krafan um CE-merkingu gildir um skemmtibát frá þeim tímapunkti þegar hann er fyrst settur á markað innan Evrópska efnahagssvæðisins. Sá sem flytur inn skemmtibát eftir að kröfur um CE-merkingu gengu í gildi þann 16. júní 1998, verða því að láta CE-merkja hann, burtséð frá því hvenær hann var smíðaður. Allir bátar sem fluttir eru inn frá löndum utan EES svæðisins  skulu vera CE merktir.

Hvaða afleiðingar hefur það að selja og kaupa skemmtibát sem ekki er CE-merktur, ef hann á að vera CE-merktur?

Það er ólöglegt að setja á markað skemmtibát sem ekki er CE-merktur. Samgöngustofa getur m.a. takmarkað eða bannað að varan sé boðin fram á markaði eða tryggt að hún sé afturkölluð eða tekin af markaði, eða ef um er að ræða vöru sem er flutt inn af aðila, sem flytur inn til einkanota, að notkun hennar sé bönnuð eða takmörkuð, sbr.28.gr. reglugerðar um hönnun og framleiðslu skemmtibáta og einmenningsfara nr. 130/2016.

Sá sem setur bátinn á markað í fyrsta skipti getur einnig þurft að bera annars konar ábyrgð vegna þess að báturinn er ekki CE-merktur. Kaupandi getur eignast endurkröfu á hann vegna vanefnda, ef CE-merki vantar á skemmtibátinn, og auk þess hugsanlega riftunarrétt, afsláttarkröfu, efndabótakröfu eða kröfu um vangildisbætur.

Afleiðingar fyrir kaupandann eru að meginstefnu, þær að erfitt getur verið að fá bátinn skráðan og kaupa tryggingar fyrir hann, auk þess sem hann gæti orðið erfiður í endursölu.

Ég er að hugsa um að kaupa skemmtibát sem smíðaður er til eigin nota. Eigandinn hefur átt bátinn í þrjú ár og báturinn er ekki CE-merktur. Hverjar eru afleiðingarnar fyrir seljanda og kaupanda slíkra skemmtibáta, ef seljandinn hefur ekki átt bátinn í 5 ár?

Skv. vii-lið 2. mgr. 1. gr. rg. nr. 168/1997 eru bátar smíðaðir til eigin nota undanskildir ákvæðum reglugerðarinnar, að því tilskildu að þeir séu ekki settir á markað næstu 5 ár eftir að smíði þeirra lýkur

Það er því ólöglegt að selja slíkan bát án CE-merkingar áður en 5 ár eru liðin frá því hann sannanlega var tekinn í notkun.

Hefur viðurkenning bandarísku strandgæslunnar einhverja þýðingu við innflutning skemmtibáts frá Bandaríkjunum?

Vottorð frá bandarísku strandgæslunni eða öðrum sambærilegum aðilum getur ekki komið í staðinn fyrir CE-merkingu.

Hvaða kröfur eru gerðar til íslenskra fiskiskipa sem ,,breytt” er í skemmtibát, m.a. varðandi CE-merkingar?

Vilji eigandi fiskiskips sem smíðað er og tekið í notkun fyrir 16. júní 1998, nota það sem skemmtibát, er honum frjálst að gera það og láta breyta skráningu hans í skemmtibát. Yngra fiskiskip verður hins vegar ekki skráð eða tekið í notkun sem skemmtibátur án þess að hafa verið CE-merkt.

Ef maður er með bandarískan skemmtibát, er þá nóg að vera með pappíra frá framleiðanda, upp á að hann uppfylli sambærilegar eða meiri kröfur en gerðar eru til þess að að bátur fái CE-merkingu?

Sá sem ætlar að kaupa nýjan bát í Bandaríkjunum, verður að láta framleiðandann vita af því að báturinn eigi að fara inn á Evrópska efnahagssvæðið, og fá fullnægjandi CE-merkingu ásamt tækniskjölum. Almennt eru einungis nýframleiddir bandarískir skemmtibátar sem ætlunin er að selja til EES, CE-merktir þar.

Skemmtibát frá Bandaríkjunum sem ekki er CE-merktur, er hægt að láta merkja við komuna til Íslands, af tilkynntum aðila, eftir að farið hefur fram innri framleiðslustýring og prófanir eftir því sem segir í 8. og 17 gr. reglugerðar 130/2016. Leggja verður fram fullnægjandi tækniskjöl, notendahandbók og samræmisyfirlýsingu, auk auðkenninúmers.

Ég er að hugsa um að flytja inn skemmtibát frá Bandaríkjunum. Má CE-merkja hann, ef samskonar bátar (svipað stór mótor, sami bolur, m.a.) hafa verið til sölu á Íslandi í nokkurn tíma og verið notaðir í löndum innan EES frá 16. júní 1998?

Það skiptir engu þótt samskonar skemmtibát megi finna á Íslandi eða innan Evrópska efnahagssvæðisins, því gerð er krafa um vottun hvers eintaks, ekki hverrar skemmtibátategundar. Því þarf hver einstakur bátur sem fluttur er til landsins að vera CE-merktur. 

Hvar finn ég reglurnar um CE-merkingu?

Sjá tilvísanir hér að neðan. Reglugerð um hönnun og framleiðslu skemmtibáta og einmenningsfara er sett til innleiðingar tilskipun, 2013/53/EU.

Mikið af upplýsingum er einnig að finna á netinu, leita má t.d. vef Staðlaráðs.

Ég er að skoða að kaupa Jet Ski frá USA, þurfa þessi tæki að vera CE- merkt, þarf að skrá/tryggja þau?

Sæþota (Jet Ski) fellur undir flokkinn "einmenningsför á sjó", en það er eins og stendur í reglugerð um skemmtibáta: bátur, undir 4 m að lengd, búinn brunahreyfli með vatnsgeisladælu sem helsta knúningsafli og sem reiknað er með að einn eða fleiri einstaklingar stýri, sitjandi, standandi eða krjúpandi.
Slík för þurfa því að vera CE-merkt samkvæmt reglugerðinni.

Ekki þarf að skrá fljótandi för undir 6 metrum, nema þau séu notuð í atvinnuskyni, en þá þarf að fá leyfi Samgöngustofu fyrir notkun þeirra, skv. reglum um smíði báta undir 6 metrum. Það sama á við um tryggingar, þær eru ekki skyldubundnar ef far er undir 6 metrum, nema það sé gert út í atvinnuskyni, skv. lögum um leyfi til farþegaflutninga. Hugsanlega verða breytingar á tryggingamálum í kringum áramótin, en fram að þeim tíma er ekki krafa um að þessi för séu tryggð.

Það getur margborgað sig að hafa slysatryggingu sem dekkar slys vegna sæþotna, sérstaklega ef um kraftmiklar þotur er að ræða, eins og lesa má um í dómi Hæstaréttar frá 2002.

Hvar getur maður nálgast lista yfir samhæfða staðla?

Sjá tilvísanir á síðu iso.org.

Hvar get ég náð mér í staðlana sjálfa? Þarf að borga fyrir þá?

Staðlarnir eru útfærslur af ISO. ISO eru notaðir til samhæfingar skv. reglugerðinni. Staðlaráð Íslands selur staðla á síðunni www.stadlar.is

Get ég fengið sent eyðublað til þess að útbúa samræmisyfirlýsingu?

Sjá samræmisyfirlýsingar hér að neðan, ein samræmisyfirlýsing er fyrir skemmtibát og hinar tvær fyrir vélar í skemmtibáta. Annars vegar innanborðsvélar og hins vegar utanborðsmótora.

Samræmisyfirlýsing fyrir skemmtibát
Samræmisyfirlýsing fyrir innanborðsvélar í skemmtibáta
Samræmisyfirlýsing fyrir utanborðsvélar í skemmtibáta


Get ég fengið sent sýniseintak af handbók eiganda?

Samgöngustofa gerir ekki slíkar handbækur og getur því ekki sent slíkt sýniseintak. Vísa má til viðeigandi samhæfðs staðals ( ÍST EN ISO 10240 Small crafts – Owner´s manual: Smábátar - Notendahandbók).

  


  


 Var efnið hjálplegt? Nei