Faggildingar

Tæknilegur hluti skipaskoðunar er í höndum einkarekinna faggiltra skoðunarstofa

Skoðunarstofur flokkast í þrjá flokka: A-faggildar skoðunarstofur, þjónustuaðilar skipsbúnaðar (ekki krafa um faggildingu) og flokkunarfélög. Auk þess er það lögbundið hlutverk Samgöngustofu að tryggja öryggi til sjós, annast útgáfu skírteina og hafa eftirlit með og eiga samvinnu við skoðunarstofurnar.

Skráður skipafloti landsmanna er í kringum 2.300 skip. Þar af skoða flokkunarfélög um 125 skip og skoðunarstofur tæplega 2.100 skip.

Rúmlega 30 stærri óflokkuð skip og tiltekin farþegaskip eru skoðuð af Samgöngustofu vegna sérstakra krafa ESB þar um.

A-faggiltar skoðunarstofur

Hlutverk A-faggiltra skoðunarstofa er fyrst og fremst tæknilegt eftirlit og eru þær í reynd hinn tæknilegi framkvæmdaarmur ríkisvaldsins. Starfsmenn skoðunarstofa fara um borð í skip (óflokkuð allt að 400 brúttótonn) og taka út ástand þeirra í samræmi við þau lög, reglur og skoðunarhandbækur sem gilda og gefnar eru út af Samgöngustofu. 

Jafnframt er skoðunarstofum ætlað að fylgjast með nýsmíði og breytingum á skipum og votta að  þar sé unnið í samræmi við teikningar og smíðalýsingar sem stofnunin hefur samþykkt.

Þjónustuaðilar (ekki krafa um faggildingu)

Þjónustuaðilar eru u.þ.b. 40 smærri aðilar sem sinnt hafa einstökum verkefnum og verkþáttum varðandi skip og búnað skipa, eins og t.d. eftirlit  með gúmmíbjörgunarbátum, áttavitum,  slökkvitækjum o.fl. Þessir aðilar taka að sér reglubundið eftirlit og viðhald búnaðar og votta með tilteknu millibili að hann sé í lagi. 

Samgöngustofa skilgreinir verkefni og hefur eftirlit með starfsemi þessara aðila.

Flokkunarfélög

Flokkunarfélög hafa verið starfandi  hér um árabil og hafa  sinnt skoðun á þeim skipum sem uppfyllt hafa reglur og kröfur þeirra. Flokkunarfélögin hafa einnig tekið að sér aukaskoðanir óflokkaðra skipa í samvinnu við Samgöngustofu. Samkvæmt lögum og samningum við flokkunarfélögin á Samgöngustofa að hafa eftirlit með starfsemi þeirra.
Var efnið hjálplegt? Nei