Farþegaleyfi

Farþegaflutningar skipa í atvinnuskyni eru háðir leyfi frá Samgöngustofu

Undir þetta falla skoðunar- og veiðferðir ferðamanna og er þetta í samræmi við lög um eftirlit með skipum nr. 47/2003

Samgöngustofa ákveður fjölda í áhöfn slíkra skipa með hliðsjón af gerð skips, fyrirkomulagi þess og búnaði, farsviði og útivist svo hægt sé að tryggja öryggi farþega, skipverja og skips. Skipstjóra ber að hafa um borð skjal sem sannar gildi leyfisins. Ráðherra er heimilt að setja reglugerð um útgáfu og skilyrði leyfis sem og um gjald fyrir útgáfu leyfisins.

Heimilt er að hafa farþegaleyfi á haffærisskírteini skipsins en brot á skilyrðum leyfisins jafngilda broti á skilyrðum haffærisskírteinisins sbr. reglugerð nr.  463/1998.

Gildistími

Gildistími farþegaleyfis má aldrei vera lengri en gildistími haffæris skipsins eða gildistími tryggingar skipsins eftir því hvort er styttra.

Kröfur vegna farþegaleyfis

Uppfylla þarf eftirfarandi skilyrði áður en farþegaleyfi er veitt:

  • Neyðaráætlun

Áður en farþegaleyfi er gefið út þarf Samgöngustofa að samþykkja neyðaráætlun fyrir skipið sem koma skal fyrir á einum eða fleiri áberandi stöðum um borð. Á neyðaráætlun skulu koma fram verkefni og skyldur sérhvers skipverja þegar neyðartilvik kemur upp, sbr. 3. gr. rg. um leyfi til farþegaflutninga með skipum nr. 463/1998.

  • Samþykkt teikninga af fyrirkomulagi öryggisbúnaðar

Áður en farþegaleyfi er gefið út þarf Samgöngustofa að samþykkja teikningu af fyrirkomulagi öryggisbúnaðar skipsins sem komið verði fyrir á einum eða fleiri stöðum um borð, sbr. 3. gr. rg. um leyfi til farþegaflutninga með skipum nr. 463/1998.

  • Öryggisfræðsla fyrir farþega

Áður en farþegaleyfi er gefið út þarf Samgöngustofa að samþykkja áætlun um öryggisfræðslu fyrir farþega, sbr. 3. gr. rg. um leyfi til farþegaflutninga með skipum nr. 463/1998.

  • Öryggismönnun

Áður en farþegaleyfi er gefið út þarf Samgöngustofa að ákveða mönnun farþegaskipa og gefa út öryggismönnunarskírteini fyrir þau þar sem kveðið er á um lágmarksfjölda í áhöfn, samsetningu áhafnar og skírteini fyrir einstakar stöður. Manna skal sérhvert íslenskt farþegaskip á öruggan hátt svo að unnt sé að sinna öllum þáttum sem tryggja öryggi áhafnar, farþega og skips. Farþegaskip skal manna þannig að unnt sé að fylgja öllum lögum og reglum um verndun umhverfis, einkum er varðar mengunarvarnir sjávar og lífríkis.

  • Hámarksfjöldi farþega

Áður en farþegaleyfi er gefið út þarf Samgöngustofa að ákveða hámarksfjölda farþega sem leyfilegt er að hafa um borð, sbr. 4. gr. rg. um leyfi til farþegaflutninga með skipum nr. 463/1998. Slík ákvörðun byggir m.a. á stærð skips, farsviði og aðstæðum um borð.

  • Farsvið

Áður en farþegaleyfi er gefið út þarf Samgöngustofa að úthluta skipinu farsviði til samræmis við lög og reglur. Farsvið farþegaskipa er ætíð bundið þeim atvinnuréttindum sem skipstjórnarmenn skipsins hafa.

  • Misjafnar kröfur um smíði og búnað eftir farsviði farþegaskips

Gerðar eru misjafnar kröfur um smíði og búnað háhraðafarþegafara, nýrra farþegaskipa og gamalla farþegaskipa 24 metrar að lengd og lengri eftir því á hvaða farsviði þau starfa.

  • Útivist

Áður en farþegaleyfi er gefið út þarf Samgöngustofa að samþykkja hámarkstímalengd hverrar ferðar, sbr. 4. gr. rg. um leyfi til farþegaflutninga með skipum nr. 463/1998.

  • Trygging

Trygging skal vera til staðar fyrir alla áhöfn og farþega farþegaskips. Kröfur um tegund tryggingar eru mismunandi eftir stærð, farsviði og starfsemi skips. Falli trygging úr gildi fellur farþegaleyfið jafnframt úr gildi.

Tryggingar farþegaskipa

Trygging skal vera til staðar fyrir alla áhöfn og farþega farþegaskips. Kröfur um tegund tryggingar eru mismunandi eftir stærð, farsviði og starfsemi skips. Falli trygging úr gildi fellur farþegaleyfið jafnframt úr gildi.

Kort af farsviðum farþegaskipa

Samantekin kort af farsviðum skv. hnitum í II. viðauka við rg. nr. 666/2001 um öryggi farþegaskipa í innanlandssiglingum, með áorðnum breytingum.

Hafsvæði þar sem rekstur er heimilaður allt árið

Hafsvæði þar sem rekstur er heimilaður 1. maí - 30. september

Hafsvæði þar sem rekstur er heimilaður 1. júní - 31. ágúst


Umsóknareyðublöð

Umsókn um leyfi/endurnýjun á leyfi til farþegaflutninga

Umsókn um útgáfu öryggisskírteinis um lágmarksmönnun


Var efnið hjálplegt? Nei