Skipsbúnaður

Lög og reglur gera kröfu um að stjórnvöld viðurkenni/samþykki skipsbúnað. Hér að neðan er að finna upplýsingar um þær reglur sem gilda um skipsbúnað og þær kröfur sem Samgöngustofa gerir til skipsbúnaðar svo hann geti talist viðurkenndur/samþykktur.


Kröfur til búnaðar skipa í atvinnuskyni

Kröfur til skipsbúnaðar og að stjórnvöld skuli viðurkenna/samþykkja skipsbúnað er að finna í:

1. Reglugerð nr. 122/2004 fyrir fiskiskip yfir 15 m að mestu lengd (vísar m.a. í skipsbúnaðar reglugerð og tilskipun, 4.gr. og kafli VII, 3. regla (1))

a. Í reglugerðinni er í nokkrum tilvikum að finna sér íslenskar kröfur til búnaðar

b. Allur skipsbúnaður skal samþykktur af stjórnvöldum (kafli VII, 3. regla (1))

c. Heimilt er að nota stýrishjólsmerktan búnað þrátt fyrir að gerðar séu sér íslenskar kröfur, háð samþykki Samgöngustofu eins og lýst er seinna hér fyrir neðan.


2. Reglugerð nr. 666/2001 fyrir farþegaskip yfir 24 m að skráningarlengd (vísar m.a. í skipsbúnaðar reglugerð og tilskipun, 5.gr., 4.mgr. og kafli III, regla 1 og 2)

a. Engar sér íslenskar kröfur eru í reglugerðinni

b. Skipsbúnaður skal vera í samræmi við SOLAS og LSA kóðann og því samþykktur af stjórnvöldum sbr. SOLAS (kafli III, regla 1 og 2 í reglugerð nr. 666/2001)

c. Stýrishjólsmerktur skipsbúnaður uppfyllir umræddar kröfur.

3. Reglum nr. 189/1994 um björgunar- og öryggisbúnað íslenskra skipa, þ.e. fyrir önnur skip en í lið 1 og 2 hér fyrir ofan (búnaður er háður viðurkenningu Samgöngustofu, 2.1.gr.)

a. Samgöngustofa gerir í megin atriðum sömu kröfur hér eins og í reglugerð nr. 122/2004 (sjá nánar umfjöllun hér fyrir neðan).

4. Reglugerð nr. 989/2016 um skipsbúnað (vísar í skipsbúnaðar tilskipun nr. 2014/90/ESB). Búnaður sem uppfyllir reglugerðina er stýrishjólsmerktur.

5. Evrópureglugerð 2021/1158 um hönnunar-, smíða- og nothæfiskröfur sem og prófunarstaðla fyrir búnað um borð í skipum (reglugerð sem er stöðugt í uppfærslu)

Kröfur til skipsbúnaðar eru því ekki að öllu leyti samræmdar á milli skipa tegunda. Þannig er að finna sér íslenskar kröfur í reglugerð um fiskiskip yfir 15 m að mestu lengd, en engar sér íslenskar kröfur til farþegaskipa sem falla undir reglugerð nr. 666/2001. Þá skal allur björgunarbúnaður viðurkenndur/samþykktur af Samgöngustofu samkvæmt reglum nr. 189/1994, en kröfur til búnaðarins ekki útlistaður í öllum tilvikum í reglunum.

Almennt viðurkennir/samþykkir Samgöngustofa stýrishjólsmerktan búnað sem fullnægjandi. Séu séríslenskar kröfur einnig í gildi telst búnaðurinn uppfylla kröfur ef hann er að mati Samgöngustofu sambærilegur búnaði samkvæmt íslenskum kröfum.  Ástæður fyrir þessu eru m.a.:


  • að tilskipanir nr. 97/70/EB (innleidd með reglugerð. nr. 122/2004) og tilskipun 2009/45/EB (innleidd með reglugerð. nr. 666/2001) ásamt SOLAS gera ráð fyrir að stýrishjólsmerktur skipsbúnaður teljist almennt viðurkenndur / samþykktur. (SOLAS = Safety of Life at Sea)
  • íslensk stjórnvöld horfa til þess, að skipsbúnaður sem er alþjóðlega viðurkenndur og því stýrishjólsmerktur eigi alls staðar við og ekki sé gerður greinamunur eftir skipstegund (s.s. að ekki gildi aðrar kröfur til skipsbúnaðar fiskiskipi heldur en í farþegaskipi, sem dæmi)

Dæmi um búnað sem er viðurkenndur/samþykktur af Samgöngustofu

Hér fyrir neðan eru tekin nokkur dæmi um hvaða búnaður er viðurkenndur/samþykktur af stjórnvöldum.

Dæmi 1 – björgunarbúningar (öll skip):

Til eru mismunandi útfærslur á stýrishjólsmerktum björgunarbúningum (með/án einangrunar, með fullnægjandi floti eða þar sem nota þarf björgunarvesti með búningnum). Sér íslenska krafan samkvæmt reglugerð. nr. 122/2004 er að björgunarbúningar skuli vera með einangrun (skip starfrækt á Norðurhafssvæðinu, VII. kafli, 9. regla, tl. 6 og 25. regla, tl. 4) og fullnægjandi floti, (VII. kafli, 25. regla, tl. 4), án þess að þurfi að nota björgunarvesti.

Einungis björgunarbúningur sem er stýrishjólsmerktur með einangrun og fullnægjandi floti er viðurkenndur/samþykktur af Samgöngustofu, enda íslensk skip stafrækt almennt á Norðurhafsvæðinu.

Dæmi 2 - gúmmíbjörgunarbátur (öll skip, nema 4 manna gúmmíbjörgunarbátur):

Stýrishjólsmerktur gúmmíbjörgunarbátur er viðurkenndur/samþykktur af Samgöngustofu og þarf ekki að uppfylla séríslensk ákvæði til hönnunar og framleiðslu gúmmíbjörgunarbáta s.s. hringlaga op o.fl. Séríslensk ákvæði varðandi hönnun og framleiðslu gúmmíbjörgunarbáta eru því valkvæð. Sjá nánar hér fyrir neðan, varðandi 4 manna gúmmíbjörgunarbát og búnað gúmmíbjörgunarbáta.

Dæmi 3 - losunar- og sjósetningarbúnaður (OLSEN, SIGMUND, VARÐELD), þar sem hans er krafist:

Losunar- og sjósetningarbúnaður er sér íslenskur búnaður og ekki til stýrishjólsmerktur valkostur, sem kemur í staðinn með sömu virkni. Því þarf Samgöngustofa áfram að viðurkenna/samþykkja losunar- og sjósetningarbúnað.

Dæmi 4 - losunarbúnaður (t.d. OLSEN), þar sem hans er krafist:

Til er íslenskur losunarbúnaður, sem er viðurkenndur af Samgöngustofu í samræmi við íslenskar kröfur. Slíkan búnað þarf Samgöngustofa að viðurkenna/samþykkja.

Dæmi 5 - björgunarvesti (öll skip):

Stýrishjólsmerkt björgunarvesti eru viðurkennd/samþykkt af Samgöngustofu og þarf ekki að uppfylla séríslenskt ákvæði um klofól fyrir skip sem falla undir reglugerð. nr. 122/2004 og reglur nr. 189/1994. Klofól er því valkvæð.

Yfirlit yfir skipsbúnað sem er viðurkenndur/samþykktur af stjórnvöldum

Hér má nálgast yfirlit yfir skipsbúnað sem er viðurkenndur/samþykktur af stjórnvöldum. Listinn er ekki tæmandi:

Yfirlit yfir skipsbúnað sem er viðurkenndur/samþykktur af stjórnvöldu( .pdf)Til að fá frekari upplýsingar/útskýringa er hægt að senda tölvupóst á sigling@samgongustofa.isVar efnið hjálplegt? Nei