Skipsskírteini

Samgöngustofa gefur út eða áritar viðeigandi skírteini þegar skip hefur staðist skoðun  

Er þetta í samræmi við lög um eftirlit með skipum nr. 47/2003  með síðari breytingum og reglugerð um skoðanir skipa og búnaðar þeirra nr. 1017/2003.

Haffæraskírteini – útgáfa og framlenging

Útgáfa, áritun og endurnýjun skírteina er háð niðurstöðu skoðunar, en tekið er á móti upplýsingum frá skoðunaraðila gegnum tölvupóst, fax, skipaskrá eða gagnagrunna flokkunarfélaga. Beiðni um framlengingu haffæraskírteinis er metin á grunni innfærðra gagna í skipaskrá.

Gildistími haffæraskírteinis getur aldrei orðið lengri en 18 mánuðir með framlengingum á milli þess sem lögbundnar skoðanir fara fram. 

Með haffæraskírteini skal ávallt senda upplýsingar um næstu skoðanir ásamt leiðbeiningum um skoðunartíma. Sé haffæraskírteini útrunnið er heimilt að gefa út nýtt haffæri til tiltekins tíma, að gefnu tilliti til útistandandi atriða.

Öryggisskírteini – útgáfa og áritun

Gildistími öryggisskírteinis er mest fjögur ár og skal ná yfir skoðunarhring skipsins. Flokkunarfélög gefa út öryggisskírteini fyrir þau skip sem þau skoða, sé það í samræmi við samning samgönguráðuneytisins við flokkunarfélög. Skoðunaraðili skal árita öryggisskírteini að skoðun lokinni, eftir því sem kveðið er á um í viðeigandi reglugerðum, að því gefnu að niðurstaða skoðunar sé hæst dæming 2.

Skírteini samkvæmt SOLAS og MARPOL

Öll skip yfir 400 brúttótonn og olíuskip yfir 150 brúttótonn skulu hafa olíumengunarvarnarskírteini (IOPP skírteini) í samræmi við reglugerð nr. 715/1995  og MARPOL sáttmálann.

Þá skulu farþega- og flutningaskip í millilandasiglingum fá útgefin öryggisskírteini í samræmi við SOLAS sáttmálann.

Farþegaleyfi - útgáfa

Farþegaleyfi er gefið út þegar öll skilyrði fyrir útgáfu hafa verið uppfyllt samkvæmt reglugerð um leyfi til farþegaflutninga með skipum nr. 463/1998.

Útgáfa leyfisins byggir á upplýsingum um tryggingar, mönnun og farsvið skips auk þess sem skipatæknideild yfirfer öryggisplan og neyðaráætlun.

Gjöld

Gjöld vegna útgáfu/áritunar/framlengingar skírteina og útgáfu farþegaleyfis eru í samræmi við gjaldskrá Samgöngustofu og greiðast af eigendum skipanna. Vinna við haffærisútgáfu greiðist af Samgöngustofu og færist á viðeigandi verknúmer nema um sé að ræða innsend gögn til yfirferðar og samþykktar, líkt og öryggisplan og neyðaráætlun. Umsóknareyðublöðum skal skilað til skrifstofusviðs.


Var efnið hjálplegt? Nei