Slysavarnaskóli sjómanna

Frestur til að gangast undir öryggisfræðslu

Heimilt er að veita skipverja á fiskiskipi tímabundinn frest í eitt skipti til að gangast undir öryggisfræðslu til þess tíma sem hann er skráður á slíkt námskeið

Allir skipverjar á íslenskum skipum þurfa að hafa lokið öryggisfræðslu hjá Slysavarnaskóla sjómanna eða hjá öðrum viðurkenndum þjálfunaraðila. 

Skipverjar á íslenskum fiskiskipum hafa svigrúm til að ljúka öryggisfræðslunni á fyrstu 180 lögskráningardögunum á sjó. Skipverjar á farþega- og flutningaskipum þurfa hins vegar að hafa lokið öryggisfræðslunni áður en þeir eru fyrst lögskráðir á íslenskt skip. 

Um alla skipverja gildir að öryggisfræðsluna þarf að endurtaka á að minnsta kosti fimm ára fresti.

Samgöngustofu er heimilt að veita skipverja á fiskiskipi tímabundinn frest í eitt skipti til að gangast undir öryggisfræðslu. Fresturinn er aðeins veittur til þess tíma sem hann er skráður á slíkt námskeið. Sambærileg heimild er ekki til staðar fyrir skipverja á farþega- eða flutningaskipum (reglugerð 817/2010).

Áður en sótt er um frest þarf skipverji að skrá sig á námskeið hjá Slysavarnaskóla sjómanna eða öðrum viðurkenndum aðila. 

UMSÓKN UM FREST

Gjald fyrir veittan frest fer eftir gjaldskrá Samgöngustofu og er kr. 2.870-. Gjaldið leggst inn á reikning nr. 515-26-210777 í Íslandsbanka. Reikningseigandi er Samgöngustofa, kt: 540513-1040. Greiðslukvittun skal senda rafrænt á logskraning@samgongustofa.is. Frestur er ekki veittur nema greiðslustaðfesting liggi fyrir. 

Lög og reglugerðir um öryggisfræðslu sjómanna

Um öryggisfræðslu sjómanna er fjallað í 3. tölul., 3. mgr. 5. gr. laga um lögskráningu sjómanna nr. 35/2010, 3. tölul. 3. mgr. 3. gr., 5. og 6. gr. reglugerðar um lögskráningu sjómanna nr. 817/2010.


Var efnið hjálplegt? Nei