Yfirlýsing um nákvæma brúttóþunga pakkaðra gáma

Þann 1. júlí 2016 tóku gildi nýjar kröfur SOLAS-samþykktar Alþjóðasiglingamála­stofnunarinnar IMO sem kveða á um að sannprófa þurfi brúttóþunga pakkaðra gáma. 

Hvers vegna voru kröfur um sannprófun á brúttóþunga gáma samþykktar?

Mjög mikilvægt er að þekkja nákvæman brúttóþunga pakkaðra gáma til að tryggja rétta lestun, stöðugleika, stöflun og frágang með það í huga að koma í veg fyrir að gámastæður hrynji eða gámar fari fyrir borð. Þetta er mikilvæg öryggisráðstöfun sem miðar að því að bjarga mannslífum, koma í veg fyrir meiðsl og tap á verðmætum.

Er yfirlýsing um brúttóþunga ný krafa?

Frá því að gámar komu til skjalanna hefur SOLAS-samþykktin kveðið á um yfirlýsingu um brúttóþunga gáma. Í nýju kröfunni er kveðið á um viðbótarstig sem kallar á sannprófun þungra gáma. Það er gert til að tryggja að yfirlýstur þungi endurspegli með raunsönnum hætti brúttóþunga pakkaðra gáma, í því skyni að koma í veg fyrir meiðsli, skemmdir á farmi, tap gáma, o.s.frv.  

Hvernig er hægt að sannreyna brúttóþunga?

SOLAS-reglan gerir ráð fyrir tveimur aðferðum til að sannreyna brúttóþunga pakkaðra gáma:

•   Aðferð 1: Vigta pakkaða gáminn með kvörðuðum og vottuðum búnaði. 

•   Aðferð 2: Vigta alla pakka og farmhluta, þar á meðal bretti, dönnis og önnur sjóbúningstæki sem eru í gámnum og bæta síðan við þyngd gámsins (tara) við summu þunga allra farmhluta með því að beita vottaðri aðferð sem samþykkt er af lögbæru yfirvaldi ríkisins þar sem lokið var við pökkun á gámnum.

Aðferð 2 er ekki hagkvæm fyrir farmflytjendur á lausavörur eins járni, korni o.fl.

Hver sannprófar brúttóþunga pakkaðra gáma?

Sendandi er ábyrgur fyrir að gefa upp sannprófaðan brúttóþunga með því að tilgreina það í farmbréfi eða í bókunar- og/eða flutningsfyrirmælum og leggja það fram við skipstjóra eða fulltrúa hans og fulltrúa gámahafnar með hæfilegum fyrirvara til notkunar við undirbúning lestunarplans skipsins.

Hver er sendandi? 

Sendandi er skilgreindur sem lögaðili eða einstaklingur, tilgreindur á farmskírteini eða fylgibréf eða jafngildu flutningsskjali um fjölþætta flutninga sem sendandi. Sendandi kann að vera framleiðandi, umboðsmaður skips, farmmiðlari, o.s.frv. 

Hvað gerist ef sannprófaður brúttóþungi er ekki tilgreindur?

Skilyrði þess að pakkaður gámur verði lestaður í skip er að sannprófaður brúttóþungi hans sé tilgreindur. Ef ekki er unnt að leggja fram sannprófaðan brúttóþunga gáms með nægilegum fyrirvara til að nota við undirbúning lestunarplans skips verður lestun hans um borð í skip sem fellur undir SOLAS-samþykktina hafnað.

Hver ákveður „vottaða aðferð" við vigtun?

Þetta er á ábyrgð lögbærs yfirvalds í því ríki þar sem lokið var við pökkun gámsins. Neytendastofa sér um að kvarða vigtunarbúnað.

Hver mun framfylgja reglum?

Eins og gildir um aðrar SOLAS-reglur fellur framkvæmd SOLAS-krafna um sannprófun brúttóþunga pakkaðra gáma undir valdsvið og ábyrgð samningsríkisstjórna SOLAS. Samningsríkisstjórnum hafnarríkja ber að staðfesta að farið sé eftir þessum SOLAS-reglum. Hvers kyns brot á SOLAS-reglum eru aðfararhæf samkvæmt landslögum.

Hver ber kostnaðinn ef brúttóþungi gáms er ekki sannreyndur?

Ef sannreyndur brúttóþungi pakkaðs gáms liggur ekki fyrir með nægilegum fyrirvara til að nota í hleðsluplan skips verður sá gámur ekki lestaður um borð í skip sem fellur undir SOLAS-reglur. Greiðsla hvers kyns kostnaðar í tengslum við það að gámur er ekki lestaður um borð í skip, við geymslu, aukabiðdaga eða hugsanleg skil á gámi aftur til sendanda hans fer eftir samningum á milli viðskiptaaðila.

Hvað ef gámur kemur til áframhaldandi flutnings án sannreynds brúttóþunga? 

Þótt sendandi beri ábyrgð á að leggja fram og skjalfesta sannprófaðan brúttóþunga pakkaðs gáms er kveðið á um ófyrirséðar aðstæður í kafla 13 í leiðbeiningum IMO um sannprófaðan brúttóþunga gáms sem inniheldur farm ( MSC.1 / Circ.1475) ef um er að ræða gáma sem mótteknir eru án sannprófaðs brúttómassa.

Í því skyni að tryggja áframhaldandi skilvirkan áframflutning slíkra gáma getur skipstjóri eða fulltrúi hans og fulltrúi gámahafnar aflað sannprófunar á brúttóþunga pakkaðs gáms fyrir hönd sendanda. Þetta má gera með því að vigta pakkaðan gám í gámahöfninni eða annars staðar. Hvort þetta sé gert og hvernig þarf að vera samkvæmt samkomulagi milli viðskiptaaðila, þar á meðal skipting kostnaðar sem til fellur.

Hvað um þá gáma sem lestaðir eru fyrir 1. júlí 2016 til umskipunar síðar? 

Á 96. fundi siglingaöryggisnefndar (MSC) IMO í maí 2016 var samþykkt að þótt engar tafir yrðu á framkvæmd SOLAS-krafnanna gæti komið sér vel ef stjórnvöld og yfirvöld hafnarríkiseftirlits myndu nálgast málið með „hagkvæmum og raunhæfum hætti“ um þriggja mánaða skeið eftir 1. júlí 2016. Þetta fyrirkomulag myndi tryggja að gámar sem eru lestaðir fyrir 1. júlí 2016, en síðan umskipaðir 1. júlí 2016 eða síðar, ná til lokahafnar sinnar án sannprófaðs brúttóþunga. Þannig fá allir hagsmunaaðilar á sviði gámaflutninga í raun þriggja mánaða umþóttunartíma eftir 1. júlí 2016 til að betrumbæta, ef nauðsyn krefur, verklagsreglur um skjalagerð, uppfæra hugbúnað og miðla rafrænum gögnum um sannprófaðan brúttóþunga.

Siglingaöryggisnefnd samþykkti dreifibréfið MSC.1/Circ.1548, Leiðbeiningar fyrir stjórnvöld, yfirvöld hafnarríkiseftirlits, félög, gámahafnir og skipstjóra um SOLAS-kröfur um sannreyndan brúttóþunga pakkaðra gáma.

Frekari upplýsingar

Leiðbeiningar um framkvæmd, MSC.1/Circ.1475

Upplýsingar á vef IMO

Upplýsingar á vef Eimskips

Upplýsingar á vef Samskipa


Var efnið hjálplegt? Nei