Köfun

Köfun skiptist í atvinnuköfun annars vegar og áhugaköfun hins vegar 

Um flokkana gilda mismunandi reglur.

Atvinnuköfun

Undir atvinnuköfun falla allar þær athafnir sem eru liður í atvinnustarfsemi eða þjónustustarfsemi kafara og annarra aðila.

Einnig telst það vera atvinnuköfun ef athöfnin er hluti skipulagðrar þjónustustarfsemi til verndar almannahagsmunum. Til að mynda ber lögreglu- og slökkviliðsmönnum að ljúka atvinnuköfunarprófi vilji þeir stunda köfun við vinnu sína og köfun til sýnatöku í rannsóknarskyni telst einnig atvinnuköfun samkvæmt lögum um köfun nr. 31/1996.

Til að mega stunda atvinnuköfun þarf að hafa lokið prófi í atvinnuköfun frá aðila viðurkenndum af Samgöngustofu og gangast undir athugun á hæfni undir umsjón prófnefndar sem skipuð er af innanríkisráðherra.

Íslensk atvinnukafaraskírteini eru gefin út af Samgöngustofu og eru þau bæði á íslensku og ensku. 

Námskeið í atvinnuköfun

Sá sem vill standa fyrir námskeiði í atvinnuköfun þarf samþykki Samgöngustofu á námskrá og námstilhögun. Kennari í námi í atvinnuköfun skal sjálfur hafa gilt atvinnuköfunarskírteini, þ.e. A, B eða C skírteini sbr. 10. gr. reglugerð nr. 535/2001 um köfun.

Kröfur fyrir atvinnuköfun

Samkvæmt 3. gr. laga um köfun skal  hver sem vill stunda atvinnuköfun fullnægja eftirfarandi skilyrðum:

  • Vera orðinn 20 ára.

  • Standast með fullnægjandi hætti heilbrigðiskröfur.

  • Uppfylla menntunar- og hæfniskröfur.

  • Hafa gilt atvinnuköfunarskírteini útgefið af Samgöngustofu.

Áhugaköfun

Sé köfunin ekki liður í atvinnu- eða þjónustustarfsemi telst hún áhugaköfun.

Námskeið í áhugaköfun/sportköfun

Nokkrir aðilar standa fyrir námskeiðum sem veita rétt til D, E og F réttinda skv. 10 gr. reglugerðar nr. 535/2001 um köfun.

Viðurkenning réttinda

Nám til köfunarréttinda sem uppfyllir tilmæli European Diving Technology Committee (EDTC), er viðurkennt af Samgöngustofu sem jafngilt íslensku námi, að undangenginni athugun á hæfni sem framkvæmd er undir umsjón þriggja manna prófnefndar skipaða af innanríkisráðherra.

Ísland er ekki aðili að EDTC en þó þarf námskrá að uppfylla tilmæli sem EDTC-stofnunin gefur út til að vera samþykkt af Samgöngustofu. Íslenskt nám ætti því að standast kröfur erlendra stofnana um inntak, áherslur og gæði náms, og erlendum stjórnvöldum innan ESB er skylt að viðurkenna nám sem er jafngilt þarlendu námi, í samræmi við EES-samninginn. Gera má ráð fyrir að handhafar íslenskra skírteina gætu þurft að gangast undir einhverjar prófanir til að sannreyna hæfni þeirra í atvinnuköfun.

Ítarefni

 

Sportkafarafélag Íslands

Köfunarskólinn Kafarinn.is   

Dive.is  


 


Var efnið hjálplegt? Nei