Skemmtibátar

Skipstjórar á skemmtibátum sem eru sex metrar að skráningarlengd eða lengri, þurfa að afla sér grunnþekkingar á öryggisþáttum sem tengjast siglingum og skipstjórn og hafa gilt skipstjórnarskírteini á skemmtibát

Umsóknir/eyðublöð sem tengjast skemmtibátum


Skilyrði fyrir skírteini

Tilvonandi skírteinishafar þurfa að hafa lokið bóklegu prófi en ekki er skilyrði að viðkomandi hafi áður setið bóklegt námskeið. Bókleg próf eru samin af Samgöngustofu á grundvelli námskrár sem stofnunin gefur út og fer prófdómari, skipaður af Samgöngustofu yfir úrlausnir og metur færni. Tækniskólinn - skóli atvinnulífsins, hefur boðið upp á bókleg próf og námskeið til undirbúnings þess.

Listi yfir prófdómara sem skipaðir eru af Samgöngustofu

Tilvonandi skírteinishafar þurfa jafnframt að hafa lokið verklegu prófi sem haldin eru af prófdómurum sem skipaðir eru af Samgöngustofu. Nálgast má gátlista prófdómara vegna verklegra prófa á skemmtibát, annars vegar vélskip og hins vegar seglskip.

Listi yfir prófdómara

Hér má nálgast lista yfir prófdómara sem skipaðir eru af Samgöngustofu.

Umsóknarferli

Þeir sem ætla að sækja um skipstjórnarskírteini skemmtibáts þurfa að fylla út rafræna umsókn. Eftirtalin gögn þurfa að fylgja umsókn áður en hún er tekin til afgreiðslu:

  • Læknisvottorð um sjón, heyrn og heilbrigði sjómanna sem er yngra en sex mánaða.

  • Nýleg passamynd - stafræn eða á ljósmyndapappír.

  • Rithandarsýnishorn

  • Vottorð prófdómara bóklegs prófs (ef um frumútgáfu er að ræða).

  • Vottorð prófdómara verklegs prófs (ef um frumútgáfu er að ræða).

  • Staðfesting á greiðslu 

Gögnin er hægt að senda rafrænt sem fylgiskjöl með umsókninni. Einnig er hægt að senda gögn á netfangið sigling@samgongustofa.is eða í pósti merkt Samgöngustofu, Ármúla 2, 108 Reykjavík. 

Afgreiðsla

Samgöngustofa miðar við að afgreiða skírteini innan 12 virkra daga frá því að öll gögn og greiðsla hafa borist. Umsókn er aðeins tekin til afgreiðslu þegar gjald hefur verið greitt. Umsækjendur geta óskað eftir því að fá skírteinið sent í pósti eða sótt það á skrifstofu Samgöngustofu.

Greiðsla

Gjald fyrir umsókn um útgáfu og endurnýjun skemmtibátaskírteina fer eftir  gjaldskrá Samgöngustofu. Gjaldið greiðist inná reikning nr. 515-26-210777 í Íslandsbanka. Reikningseigandi er Samgöngustofa kt: 540513-1040. Greiðslukvittun skal senda á sigling@samgongustofa.is.  

Ítarefni

Samgöngustofa hefur útbúið kynningarbækling um skemmtibáta.


Nánari upplýsingar um próf til skemmtibátaskírteinis er að finna í reglum nr. 393/2008 og um skírteinið í 17. gr. reglugerðar nr. 175/2008 með síðari breytingum.



Var efnið hjálplegt? Nei