Breyttar reglur á landamærum um sýnatöku og sóttkví 1. apríl

vegna COVID-19

Hér má sjá yfirlit yfir breyttar reglur á landamærum um sýnatöku og sóttkví frá og með 1. apríl 2021

 

Hér má sjá yfirlit yfir breyttar reglur á landamærum um sýnatöku og sóttkví frá og með 1. apríl 2021:

  • Börn fædd 2005 eða síðar skulu fara í sýnatöku á landamærum Íslands frá og með 1. apríl næstkomandi.
  • Gerð verður krafa um að farþegar sem framvísa bólusetningarvottorði eða vottorði um fyrri sýkingu fari í eina sýnatöku við komuna til landsins.
  • Ferðamenn sem koma frá skilgreindum áhættusvæðum skulu dvelja í sóttkví eða einangrun í sóttvarnahúsi milli fyrri og síðari sýnatöku.
  • Allir ferðamenn skulu forskrá fyrir komuna til landsins hvaða dag þeir fara aftur af landi brott, liggi það fyrir.
  • Frá og með 11. apríl verður innheimt gjald af ferðamönnum fyrir dvöl í sóttvarnahúsi.

Heilbrigðisráðherra setur reglugerð um ofangreindar breytingar sem gerðar eru í samræmi við tillögur sóttvarnalæknis.

Sýnataka og sóttkví barna: Börn fædd 2005 eða síðar fara í sýnatöku á landamærunum. Ferðist barn með einstaklingi sem skylt er að sæta sóttkví dvelur barnið þar með honum og losnar úr sóttkví ef síðara sýni úr samferðamanni er neikvætt. Ef samferðamaðurinn er undanþeginn sóttkví er barnið það sömuleiðis. Barn sem ferðast eitt þarf ekki að fara í sóttkví.

Sýnataka hjá einstaklingum með vottorð: Krafa um sýnatöku hjá einstaklingum með bólusetningarvottorð eða vottorð um fyrri sýkingu er sett vegna vísbendinga um að þessir einstaklingar geti borið smit. Þeir þurfa ekki að sæta sóttkví en skulu bíða niðurstöðu úr sýnatöku á dvalarstað. Krafan er tímabundin og verður endurskoðuð fyrir 1. maí.

Skilgreind áhættusvæði: Þeir sem koma frá skilgreindum áhættusvæðum skulu dvelja í sóttkví eða einangrun í sóttvarnahúsi. Þetta á við ferðamenn frá löndum eða landsvæðum þar sem 14 daga nýgengi smita á hverja 100.000 íbúa er yfir 500 (dökkrauð svæði) eða fullnægjandi upplýsingar um svæðið liggja ekki fyrir (grá svæði), samkvæmt upplýsingum frá Sóttvarnastofnun Evrópu, sbr. meðfylgjandi listi yfir þau lönd sem um ræðir. Áætlað er að listinn verði næst uppfærður 9. apríl nk.

Sérstakar varúðarráðstafanir

Ráðstafanir vegna falsaðra vottorða: Ef minnsti grunur vaknar um að einstaklingur hafi framvísað fölsuðu vottorði verður hann skyldaður í tvöfalda sýnatöku með sóttkví á milli í sóttvarnahúsi.

Ef dvalartími er stuttur:
Ferðamanni er skylt að forskrá brottfarardag frá Íslandi liggi hann fyrir. Ef dvalartími er skemmri en nemur áskildum tíma í sóttkví verður það kannað sérstaklega, enda hætt við að viðkomandi muni ekki fylgja reglum um sóttkví.

Gjaldtaka vegna dvalar í sóttvarnahúsi frá 11. apríl

Frá 11. apríl skulu þeir sem dvelja í sóttvarnahúsi greiða gjald fyrir dvöl í sóttvarnahúsi. Gjaldið nemur 10.000 kr. fyrir herbergi hverja nótt og er fæði innifalið. Gildir þá einu hvort einn dvelur í herberginu eða fleiri einstaklingar sem ferðast saman.

  • Listi yfir lönd/landsvæði sem eru dökkrauð eða grá (https://www.landlaeknir.is/um-embaettid/greinar/grein/item44813/COVID-19-landalisti-fyrir-sottvarnahus)

 

 

Nánar á vef stjórnarráðs Íslands.


Var efnið hjálplegt? Nei