Ný þjónustudeild hjá Samgöngustofu

30.3.2015

Í tengslum við skipulagsbreytingar hjá Samgöngustofu er nú verið að setja á laggirnar nýja þjónustudeild á rekstrarsviði. Markmiðið er að þessar breytingar gerist hratt og muni bæta þjónustu við viðskiptavini stofnunarinnar. Til skamms tíma má þó ef til vill búast við einhverjum afgreiðslutöfum á meðan tilflutningar innanhúss og samræming verkferla stendur yfir.

Í þjónustudeildinni verða símaver, móttökuver og verkefnaver, sem sjá um móttöku erinda viðskipavina stofnunarinnar. Verða þau skráð með skipulögðum hætti, leyst hratt og örugglega úr einfaldari afgreiðslumálum og flokkuð til frekari úrvinnslu í verkefnaveri þau erindi sem krefjast meiri skoðunar.

Í þjónustudeildinni verða ökutækjaskrá, loftfaraská og skipaskrá og umsjón með skírteinaútgáfu til einstaklinga og leyfishafa. Í deildinni starfa um 20 starfsmenn sem veita símsvörun, taka á móti viðskiptavinum og gögnum og leysa úr erindum sem Samgöngustofu berast. Sérhæft starfsfólk af fagsviðum flyst í hina nýju þjónustudeild, en bakhjarlar deildarinnar verða áfram sérfræðingar á sameinuðu fagsviði flugs, siglinga og umferðar. Með tilkomu þjónustudeildarinnar verður álagi létt af sérfræðingum fagsviða og fagleg þekking þeirra gagnvart flóknari úrlausnaefnum nýtist enn betur.