Vegna frétta um hugsanlegt eldgos í Bárðarbungu

22.8.2014

Gefin hafa verið út tvö Upplýsingabréf (AIC) með leiðbeiningum um starfrækslu loftfara við aðstæður sem skapast geta í kjölfar hugsanlegs eldgoss í Bárðarbungu. 

Samgöngustofa fer með stjórnsýslu og eftirlit með samgöngum, þar með talið flugstarfsemi.  Samgöngustofa sinnir eftirliti með íslenskum flugrekendum og einnig Isavia ohf. sem sinnir flugumferðarþjónustu og Veðurstofu Íslands sem veitir flugveðurþjónustu.

 
Isavia ohf. sinnir rekstri flugumferðarþjónustu og rekstri áætlunarflugvalla.  Isavia sinnir einnig upplýsingaþjónustu flugmála og veitir nauðsynlegar upplýsingar komi til eldgoss, þar á meðal með útgáfu svokallaðs NOTAM sem er sérstök tilkynning ætluð flugmönnum. Nánari upplýsingar má finna hjá Isavia ohf. www.isavia.is


Veðurstofa Íslands vaktar eldvirkni og komi til eldgoss mun Veðurstofan gefa út upplýsingar um hvar ösku er að finna í andrúmsloftinu eða hvar ösku er spáð. Í því skyni gefur VÍ út sk. SIGMET. Allar nánari upplýsingar er að finna á vef Veðurstofunnar www.vedur.is  og  www.vedur.is/vedur/flugvedur/sigmet.


Ofangreindir aðilar hafa undanfarna daga yfirfarið sínar viðbragðsáætlanir og fylgist Samgöngustofa grannt með framgangi mála.


Um réttindi farþega vegna niðurfellds flug af völdum náttúruhamfara má lesa á vef Samgöngustofu.