Almenn undanþága vegna Covid19 – almannaflug, heilbrigðisvottorð og flugkennsla

31.3.2020

Samgöngustofa hefur gefið út almenna undanþágu frá tilteknum kröfum reglugerðar (ESB) 1178/2011 um áhöfn í almenningsflugi vegna ómöguleika í kjölfar Covid19 faraldurs. Hér fyrir neðan er tæpt á því helsta varðandi útfærsluna en sjá má nánari upplýsingar í fylgiskjali með ákvörðun um undanþágu.  

Að því gefnu að gildistími áritunar eða heimildar renni út fyrir 31. júlí nk. og ómöguleiki í kjölfar Covid19 faraldurs komi í veg fyrir að skírteinishafi eða umsækjandi um skírteini geti uppfyllt gildandi kröfur reglugerðar (ESB) 1178/2011 gildir eftirfarandi:

(a) Gildistími flokks- og tegundaráritana er framlengdur um 4 mánuði

Verklag: Þegar fram hefur farið kynning í samræmi við fylgiskjalið er prófdómara heimilt að framlengja áritun í skírteini. Að því loknu ber skírteinishafa að tilkynna Samgöngustofu að undanþáguheimildin hafi verið nýtt ( fcl@icetra.is ).

(b) Gildístími heilbrigðisvottorða framlengdur um 4 mánuði

Verklag: Gildistími heilbrigðisvottorða sem renna út fyrir 31. júlí nk., og innihalda ekki aðra takmörkun en sem varðar sjónkröfur, framlengist sjálfkrafa. Ekki þarf að endurútgefa vottorð. Ef talin er sérstök ástæða til að endurútgefa vottorð er skírteinishafa bent á að hafa samband við sinn fluglækni. Ekki þarf að tilkynna til Samgöngustofu að nýta eigi undanþáguna.

(c) Gildistími kennara- og prófdómaraheimilda er framlengdur til loka undanþágunnar (30. nóvember 2020).
Verklag: Prófdómara er heimilt að framlengja kennaraáritun í skírteini. Að því loknu ber skírteinishafa að tilkynna Samgöngustofu að undanþáguheimildin hafi verið nýtt (fcl@icetra.is ).

Umsóknir um framlengingu prófdómaraheimildar á grundvelli undanþágunnar skal senda til Samgöngustofu (fcl@icetra.is ).

(d) Gildistími bóklegra prófa til útgáfu einkaflugmanns- og atvinnuflugmannsskírteina sem rennur út á gildistíma undanþágunnar er framlengdur til loka hennar (30. nóvember 2020).

Verklag: tilkynna skal Samgöngustofu um að verið sé að nýta undanþáguna þegar sótt er um það skírteini sem um ræðir.