Ástandsmat flugbrauta
Þann 1. október n.k. verður innleitt nýtt fyrirkomulag við mat á ástandi flugbrauta við vetraraðstæður og upplýsingagjöf til flugmanna um brautarástand á íslenskum alþjóða- og áætlanaflugvöllum. Einnig verður breyting á sniðmáti og innihaldi SNOWTAM, nefnt Samhæft sniðmát (e. GRF Global Reporting Format).
Forsendur flugmanna við mat á afköstum loftfars við flugtak og lendingu breytast samhliða því að flugvélaframleiðendur aðlaga handbækur og/eða tölvukerfi flugvéla að nýja fyrirkomulaginu. Þá verður flugmönnum gert skylt að tilkynna ef brautarástand er með öðrum hætti en uppgefið.
Nýja fyrirkomulagið verður í samræmi við reglugerðarbreytingu Flugöryggisstofnunar Evrópusambandsins (EASA) á reglugerð 139/2014 fyrir flugvelli sem innleidd var 12. ágúst 2021 og mun Alþjóða Flugmálastofnunin (ICAO) innleiða sambærilegt fyrirkomulag á heimsvísu 4. nóvember 2021. Flugmálastjórn Bandaríkjanna (FAA) innleiddi sambærilegt verklag árið 2016.
Nánari upplýsingar má nálgast í upplýsingabréfi í AIP ICELAND AIC A 004 / 2021 á vef Isavia og The New Global Reporting Format for Runway Surface Conditions (icao.int).