Flug með farþega gegn gjaldi

9.8.2022

Eldgos er hafið að nýju á Reykjanesi og landsmenn eru áhugasamir um að bera gosið augum úr lofti sem og af jörðu niðri. Samgöngustofa vill af þeim sökum vekja athygli þeirra sem hug hafa á að nýta sér þjónustu þeirra sem bjóða upp á flug yfir gosstöðvarnar á eftirfarandi:

Aðeins flugrekendur með flugrekstarleyfi hafa heimild til þess að taka gjald fyrir flug með farþega, t.d. útsýnisflug yfir eldstöðvarnar á Reykjanesi.

Listi yfir handhafa flugrekstrarleyfa er aðgengilegur á vef Samgöngustofu.

Emm.is.-0706
Flug með flugrekanda sem hefur flugrekstrarleyfi veitir farþegum meira öryggi en í einkaflugi þar sem ríkari öryggiskröfur eru gerðar til flugrekenda og atvinnuflugs en einstaklinga sem stunda einkaflug. Gerðar eru mun viðameiri kröfur hvað varðar þjálfun og próf flugmanna auk þess sem gerðar eru kröfur um rekstrarstjórn og viðhaldsstjórn loftfara sem eru skráð til atvinnuflugs.

Eftir sem áður geta einkaflugmenn skipt beinum kostnaði flugsins á milli sín og farþega. Hér er um að ræða kostnað sem felst í leigu á flugvél og eldsneytiskostnaði. Einkaflugmenn mega ekki stunda flug á viðskiptalegum forsendum en miðað er við að vinir og kunningjar geti skipt kostnaði á milli sín og umfang flugs sé takmarkað. Enginn hagnaður má skapast af framkvæmd flugsins.

Hámarksfjöldi í flugi þar sem kostnaði er skipt á milli flugmanns og farþega er sex, að flugmanni meðtöldum. 

Frekari upplýsingar eru að finna á vef Samgöngustofu.