Nýjar reglur um skimun vökva í handfarangri

20.1.2014

Þann 31. janúar 2014 taka gildi reglur Evrópusambandsins um skimun vökva í handfarangri farþega á alþjóðlegum flugvöllum. Því hefur sérstakur skimunarbúnaður verið settur upp á flugvöllum. Ætlunin er að þetta verði fyrsti áfangi þess að farþegum verði síðar heimilt að taka allan vökva með sér, en reynslan af þessum breytingum og framfarir í skimunartækni munu ráða hraða framvindunnar.Farþegum verður áfram skylt að framvísa öllum vökva við öryggisleit á flugvöllum. Í þessum fyrsta áfanga verða engar breytingar á því vökvamagni sem farþegum verður heimilt að taka með í handfarangri. Eftir sem áður má farþegi því hafa með sér: 

  • vökva í umbúðum sem eru hámarki 100 ml. Einingum skal pakkað í endurlokanlega poka (hámarksstærð 1 l.) og hver farþegi má hafa meðferðis einn slíkan poka
  • lyf- og sérfæði (t.d. barnamat)
  • vökva sem keyptur er í fríhöfn eða um borð í loftfari svo framarlega sem honum er pakkað í STEB-poka (Security Tamper Evident Bag – sérstakir öryggispokar). Í pokanum þarf einnig að vera kvittun sem staðfestir kaup á flugvelli eða í loftfari og að kaupin hafi verið gerð innan 36 klst.