Samgöngustofa - Sameinaðir kraftar í lofti, láði og legi

5.7.2013

SamgöngustofaSamgöngustofa er stjórnsýslustofnun samgöngumála í samræmi við lög frá 30. nóvember 2012. Stofnunin heyrir undir innanríkisráðuneytið og er ætlað að stuðla að öruggum, sjálfbærum, greiðum og hagkvæmum samgöngum. Samgöngustofa fer með stjórnsýslu samgöngumála og annast eftirlit er varða flug, siglingar, umferð og öryggiseftirlit með samgöngumannvirkjum. Öll verkefni sem áður heyrðu undir Flugmálastjórn Íslands og Umferðarstofu færast til hinnar nýju stofnunar, svo og stjórnsýslu- og eftirlitsverkefni Siglingastofnunar Íslands auk leyfisveitinga og umferðareftirlits sem áður voru á hendi Vegagerðarinnar. Samhliða færast framkvæmda- og rekstrarverkefni Siglingastofnunar til Vegagerðarinnar.

Hjá Samgöngustofu starfa um 160 manns með mikla faglega þekkingu. Við hefjum störf full bjartsýni og erum þess fullviss að sameinaðir kraftar verði framfaraspor fyrir íslenskt samfélag.
Sameiningin

Tímabundið má ef til vill búast við einhverjum hnökrum á einstökum þjónustuþáttum Samgöngustofu og við þökkum viðskiptavinum fyrir þolinmæðina á meðan á sameiningu stendur. Þar til nýr vefur Samgöngustofu fer í loftið nýtum við áfram vefi gömlu stofnananna sem finna má hér á vinstri hliðarstiku. Ef smellt er á „Samgöngustofa“ má þar finna skipurit hinnar nýju stofnunar og frekari upplýsingar um verkefni og starfsfólk.
Staður

Fyrst um sinn starfar Samgöngustofa í húsakynnum þriggja eldri stofnana á höfuðborgarsvæðinu: Flugmál í Skógarhlíð 12, siglingamál í Vesturvör 2 og umferðarmál í Borgartúni 30. Auk þess hefur hún starfsstöðvar úti á landi: Á Ísafirði, Akureyri og Stykkishólmi.