Engar nýjar skorður við flugi Landhelgisgæslunnar utan 12 mílna

9.1.2013

Ný íslensk reglugerð tók gildi um áramótin sem fjallar um starfrækslu loftfara í opinberum rekstri. Reglugerðin var sett í kjölfar úttektar Flugöryggisstofnunar Evrópu  (EASA) sem benti á að í  evrópskri grundvallarreglugerð um flugöryggismál er flugstarfsemi sem varðar lög- og tollgæslu, leit og björgun, slökkvistarf, landhelgisgæslu eða sambærileg verkefni undanþegin. Hvert ríki getur hins vegar ákveðið að kröfurnar í reglugerðum EASA eigi við um slíka starfsemi að öllu leyti eða að hluta.  Tilgangur íslensku reglugerðarinnar er að setja skilyrði um flugrekstur loftfara sem uppfylla ekki tæknilegar kröfur varðandi tegundarskírteini eða stunda flugstarfsemi sem varðar áður upptalin atriði. Þetta er sama fyrirkomulag og gildir í öðrum ríkjum Evrópu.

Öll loftför Landhelgisgæslunnar eru á flugrekendaskírteini samkvæmt nýju reglugerðinni (TF-SIF, TF-LIF, TF-SYN, TF-GNA). Aðeins þyrlan TF-SYN uppfyllir öll ákvæði Evrópureglnanna og sú vél er skráð bæði samkvæmt nýju reglugerðinni og reglum um flutningaflug  með þyrlum (JAR-OPS 3).
Í flugvélinni TF-SIF er t.d. sérstakur búnaður sem samræmist ekki reglum Flugöryggisstofnunar Evrópu (EASA) varðandi flutning á farþegum og vörum og er flugvélin því skráð samkvæmt nýju reglugerðinni.

Engar nýjar skorður hafa verið settar með nýju reglugerðinni varðandi leitar og björgunarhlutverk Landhelgisgæslunnar og flugrekstur á þyrlum hennar.   Afla þarf viðeigandi leyfa sé ætlunin að fljúga í lofthelgi annars ríkis eins og áður. Það er ekki hlutverk EASA að afgreiða slíkar heimildir heldur viðkomandi ríkja  Á alþjóðlegu flugsvæði við Ísland , fyrir utan lofthelgi Íslands, þarf ekki sérstaka heimild og engar skorður  eru í nýju reglugerðinni við flugi utan 12 mílna eins og gefið er til kynna í frétt Morgunblaðsins í dag.