Flugmálastjórn Íslands óskar eftir að ráða sérfræðing á þróunar- og greiningarstofu

10.7.2012

Starfssvið
Starfið felst einkum í að hafa umsjón með rekstri  gagnagrunns um flugatvik, þ.m.t. skráningu og greiningu gagna og miðlun upplýsinga um flugöryggi.  Viðkomandi annast samskipti við innlendar og alþjóðlegar stofnanir og fyrirtæki í flugtengdum rekstri varðandi málaflokkinn.
 
Menntunar- og hæfnikröfur
Gerð er krafa um háskólapróf og innsýn í flug, eða stúdentspróf í raungreinum og bóklegt atvinnuflugmannspróf eða annað sambærilegt próf og reynslu tengda flugstarfsemi. Viðkomandi þarf að hafa mjög  góða íslensku- og enskukunnáttu. Mjög góð tölvukunnátta er nauðsynleg, góð kunnátta í tölfræði sem og mjög gott vald á tölfræðilegri úrvinnslu og framsetningu upplýsinga sem nýtist við greiningarvinnu. Æskilegt er að viðkomandi hafi reynslu af gæðakerfum.
Við leitum að starfsmanni með góða samstarfshæfileika og þægilega framkomu. Áhugi og þekking á flugstarfsemi er nauðsynleg. Hann þarf að sýna af sér frumkvæði, sjálfstæði og fagmennsku í starfi, vera skipulagður og agaður í verkum sínum og geta unnið undir álagi. Launakjör taka mið af viðeigandi kjarasamningum opinberra starfsmanna.

Í boði er áhugavert og fjölbreytt starf hjá Flugmálastjórn þar sem hæfileikar og frumkvæði fá notið sín. Öllum umsóknum verður svarað þegar ákvörðun um ráðningu hefur verið tekin. Umsóknir geta gilt í allt að sex mánuði. Flugmálastjórn áskilur sér rétt til þess að hafna öllum umsóknum.
Vinsamlegast sendið umsókn og ferilskrá til Flugmálastjórnar Íslands, Skógarhlíð 12, 105 Reykjavík fyrir 9. ágúst n.k. merkt  „Flugmálastjórn – umsókn um starf sérfræðings á þróunar- og greiningarstofu“. Nánari upplýsingar veitir  Valdís Á. Aðalsteinsdóttir staðgengill framkvæmdastjóra stjórnsýslusviðs í síma 569 4124  / t-póstur: valdis@caa.is.

Flugmálastjórn Íslands er ríkisstofnun með rúmlega 40 starfsmenn. Hlutverk Flugmálastjórnar er að fara með stjórnsýslu á sviði flugmála innanlands og á alþjóðavettvangi, hafa eftirlit með hvers konar flugstarfsemi á vegum íslenskra aðila til að tryggja öryggi í flugi innanlands og utan. Flugmálastjórn leggur áherslu á jafnan rétt kvenna og karla til starfa.