Úttekt Alþjóðaflugmálastofnunarinnar lokið

4.11.2010

Úttekt Alþjóðaflugmálastofnunarinnar (ICAO) á starfssemi Flugmálastjórnar sem hófst 19. október síðastliðinn lauk fimmtudaginn 28. október.  Markmið úttektarinnar var að skoða innleiðingu íslenska ríkisins á 16 af 18 viðaukum við svokallaðan Chicago sáttmála sem undirritaður var árið 1945 og  starfsumhverfi  Flugmálastjórnar Íslands, skipulag og lagalegt umhverfi.  Könnuð var framkvæmd stjórnsýslu og heimildaveitinga stofnunarinnar sem og  eftirlit Flugmálastjórnar með íslenskum flugiðnaði, allt frá skírteinaútgáfu, flugvallaeftirliti til  eftirlits með lofthæfi og flugrekstri.
 Í dag eru 190 þjóðríki í heiminum aðilar að samningnum og er Ísland í hópi þeirra síðustu til að undirgangast úttektina.

Úttektinni er skipt í 4 hluta.  Í fyrsta hluta fór fram undirbúningur úttektarinnar en starfsmenn Flugmálastjórnar sem og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins hafa undanfarið ár lagt mikla vinnu í undirbúninginn og svarað þúsundum spurninga um starfsemi stofnunarinnar, stjórnsýslu og eftirlit.  Annar hluti var úttektin sjálf sem nú er lokið.  Fimm manna úttektarteymi kom til landsins sunnudaginn 18. október og vann við úttektina í 10 daga.  Um var að ræða langa vinnudaga flesta daga, hafist var handa snemma morguns í húsakynnum Flugmálastjórnar og eftir að vinnu þar lauk seint á daginn vann úttektarteymið áfram á hótelinu sem þau dvöldu á. 

Mánudaginn 26. október voru nokkrir leyfishafa Flugmálastjórnar heimsóttir til að kanna virkni  eftirlits og eftirfylgni stofnunarinnar. Litið var til þess að íslenskur flugiðnaður hefði innleitt þær kröfur í sína starfssemi sem Ísland staðfestir að innleiddar séu með aðild sinni að Chicago sáttmálanum.  Fyrirtækin sem heimsótt voru, voru Icelandair Tecnical Services, Icelandair, Air Atlanta, Isavia, Veðurstofa Íslands, Keflavíkurflugvöllur og Flugskóli Íslands. 

Auk Flugmálastjórnar tóku Landhelgisgæslan og Rannsóknarnefnd flugslysa virkan þátt í úttektinni enda bera þær stofnanir ábyrgð á stórum hluta í tveimur viðaukum.

 Þriðji hluti úttektarinnar stendur nú yfir.  Í þessum hluta fara fram skýrsluskrif og samantekt úttektarinnar. Bráðabirgðaskýrsla er væntanlega eftir 90 daga og mun Flugmálastjórn hafa 30 daga til að koma athugasemdum sínum áleiðis í lok ferilsins.  Að því loknu þarf Flugmálastjórn að skila vinnuáætlun til að svara þeim athugasemdum sem gerðar hafa verið. Fjórði og síðasti hluti úttektarinnar er úttektarskýrslan sjálf sem birt verður í ágúst 2011.  Sú skýrsla er opinber og verður kynnt öllum 190 aðildarríkum ICAO.
Í heildina má segja að úttektin hafi enn sem komið er gengið ágætlega.  Í   öðrum hluta úttektarinnar kom ekkert fram sem telst ógna flugöryggi (Significant safety concern)
Framganga úttektarinnar og niðurstöður hennar skipta miklu fyrir Ísland sem og Flugmálastjórn Íslands.  Mikilvægt er að bregðast við þeim frávikum og tilmælum sem fram koma í úttektinni enda fylgja niðurstöður hennar stofnuninni sem og íslenskum flugiðnaði í náinni framtíð.