Björgunar- og slökkviþjónusta á flugvöllum

26.3.2010

Kröfur til rekstraraðila flugvalla um björgunar- og slökkviþjónustu á flugvöllum er lýst í reglugerð nr. 464/2007 um flugvelli. Reglugerðin er í samræmi við kröfur Alþjóðaflugmálastofnunarinnar (ICAO) sem er að finna í viðauka 14 við svonefndan Chicago sáttmála.

Í grein 9.2 í viðauka 14 er lögð sú skylda á herðar rekstraraðila flugvalla að þeir komi sér upp viðbúnaðarþjónustu ef loftfari hlekkist á  (flugslys / flugatvik) sem á að geta brugðist við samstundis með það markmið að bjarga mannslífum.  Í viðauka 14 er nánar útlistaðar kröfur til flugvalla vegna slíks viðbúnaðar en þær byggja m.a. á stærð loftfara sem um flugvöllinn fara.  Kröfurnar snúa að slökkvimagni, þjálfun starfsmanna til að slökkva eld í loftfari sem og viðbragðstíma að fjærsta brautarenda á hverjum tíma. 

Reglugerð nr. 464/2007 um flugvelli og viðauki 14 er grundvöllur að starfsleyfi flugvalla. Flugmálastjórn Íslands hefur eftirlit með rekstraraðilum flugvalla, m.a. að þeir uppfylli kröfur um að flugvöllur sé í réttum slökkviflokki miðað við stærð loftfara sem nota flugvöllinn, nægilegt slökkvimagn sé til staðar miðað við slökkviflokk, viðbragðsaðilar hafi hlotið þjálfun til að slökkva elda í loftfari og  viðbragðstíma.

Starfsleyfi flugvalla og eftirlit Flugmálastjórnar Íslands með þeim byggir á því að rekstraraðilar flugvalla uppfylli ákvæði loftferðarlaga nr. 60/1998 um flugvelli, reglugerð nr. 464/2007 um flugvelli og viðauka 14 og þar með uppfylli flugvöllurinn alþjóðlegar kröfur um björgunar- og slökkviþjónustu á flugvöllum.  Rétt er í þessu sambandi að benda á að engin krafa er í þessum alþjóðakröfum um rekstur eiginlegs slökkviliðs eins og þekkist í borgum og bæjum, heldur einungis að sinna fyrstu viðbragðsþjónustu ef loftfari hlekkist á.