Viðhaldsáætlanir fyrir einkaflugvélar - Staðan í mars 2010

24.3.2010

Eigendur einkaflugvéla hafa undanfarið unnið að því að tryggja aðlögun að nýju kröfum Flugöryggisstofnunar Evrópu (EASA) um áframhaldandi lofthæfi loftfara, sem hafa tegundarskírteini (TC) sem EASA tekur gilt, sbr. tilkynning Flugmálastjórnar frá sl.ári.

Aðlögunartímabil
Í tilkynningunni er getið um að aðlögunartímabil  er í gildi til 28. september 2011 varðandi EASA lofthæfistaðfestingavottorð (ARC) fyrir loftför í almannaflugi. Þetta gildir um loftför sem voru með lofthæfiskírteini í gildi þann 28. september 2008 og fengu þau endurútgefin ekki síðar en 28. september 2009.

Við næstu endurútgáfu þarf síðan að leggja fram samþykkta viðhaldsáætlun.

Undirbúningur og tímaáætlun
Þessi vinna hefur farið ágætlega af stað og er þegar búið er að samþykkja áætlanir fyrir allmargar flugvélar. Í mörgum tilvikum hafa reyndir flugvirkjar tekið  að sér að útbúa viðhaldsáætlun fyrir flugvélaeigendur og hefur það fyrirkomulag reynst vel.

Á meðfylgjandi mynd er yfirlit um fjölda loftfara sem renna út á þjóðar ARC skv. þessu í lok hvers mánaðar. Mesti kúfurinn er í sumar og því er mikilvægt að viðhaldsáætlanir séu lagðar fram tímanlega með að lágmarki 4 vikna fyrirvara til að tryggja að unnt sé að endurnýja lofthæfistaðfestingarvottorð tímanlega. Vonast Flugmálastjórn til að allir umráðendur einkaflugvéla hafi lagt inn umsóknir fyrir 1. maí n.k. fyrir flugvélar þar sem þjóðar ARC rennur úr gildi í maí, júní, júlí og ágúst. Að öðrum kosti er ekki unnt að tryggja tímanlega afgreiðslu.

Fjöldi ARC útrunnin í lok hvers mánaðar 2010Frágangur - Kostnaður

Flugmálastjórn tekur fast gjald fyrir samþykki á viðhaldsáætlunum 22.600 kr. Gjaldtökunni er mjög stillt í hóf og miðast við viðhaldsáætlanir séu vel útfærðar áður en þær eru lagðar inn til samþykkis hjá Flugmálastjórn.

Ef um veruleg frávik frá kröfum er að ræða er áætlunum hafnað strax með skýringu áður en formleg yfirferð hefst. Þá er gerður fyrirvari um frekari gjaldtöku skv. tímagjaldi ef yfirferð tefst vegna endurtekinna ófullnægjandi viðbragða eða upplýsinga umráðanda.

Skýringar - leiðbeiningar
Til einföldunar hefur Flugmálastjórn útbúið ramma að viðhaldsáætlun (template).
Þessi aðferðafræði hefur reynst vel en aðrar útfærslur eru einnig heimilar sem gera grein fyrir sömu atriðum á greinargóðan hátt.

Full aðlögun að nýju kröfunum felur í sér að öll lofthæf loftför uppfylli að fullu kröfur um viðvarandi/áframhaldandi lofthæfi eigi síðar en 28. september 2011. það felur m.a. í sér að loffar sé með EASA ARC og samþykkta viðhaldsáætlun.

Þessar nýju kröfur byggjast á kröfum EASA sbr. rg. EC 2042/2003 (íslensk reglugerð nr. 206/2007 sbr. 1047/2007) og gilda um alla Evrópu.

 

Nánari upplýsingar veitir lofthæfideild Flugmálastjórnar Íslands