Nýjar reglur um aðstoð við fatlaða sem ferðast með flugi

25.7.2008

Sett hefur verið reglugerð um vernd og aðstoð við fatlaða farþega í flugi.  Reglugerðinni er ætlað að tryggja að rekstraraðilar flugvalla og flugrekendur veiti þessum farþegahópi nægilega aðstoð og sporna þannig gegn mismunun gagnvart þeim.  Reglugerðin sem tekur gildi 26. júlí 2008 er innleiðing á reglugerð Evrópuþingsins og Evrópuráðsins nr. 1107/2006 frá 5. júlí 2006 um réttindi fatlaðs og hreyfihamlaðs fólks sem ferðast með flugi.  Reglugerðin tekur til flugs innan landa Evrópusambandsins og evrópska efnahagssvæðisins.

Nauðsynlegt er að farþegar sem óska aðstoðar á flugvelli eða í flugvél láti vita af þeirri þörf þegar gengið er frá pöntun flugfars. Ber flugrekanda og/eða ferðaskrifstofu að koma beiðni farþega áfram til rekstraraðila flugvallar sem ábyrgð ber á því að veita aðstoðina.

Sjá frekari upplýsingar:
   Réttur fatlaðra til þjónustu