Tvíhliða samningur Íslands og Bandaríkjanna
Frá undirrituninni: Jón Gunnar Jónsson forstjóri Samgöngustofu ásamt Stephen Dickson forstjóra flugmálastjórnar Bandaríkjanna.
Undirritaður hefur verið tvíhliða samningur á milli Íslands og Bandaríkjanna sem varðar flugöryggismál, en hann hefur verið í undirbúningi að undanförnu. Samningurinn tekur m.a. til viðurkenninga á breytingum á loftförum, viðgerðum og búnaði.
Samningurinn liðkar fyrir viðskiptum milli landanna hvað varðar flugtæknileg málefni og er því mikilvægur fyrir flugrekendur, viðhaldsstöðvar og sérhæfð fyrirtæki sem annast tækniþjónustu á sviði lofthæfi.
Samninginn undirrituðu forstjóri Samgöngustofu, Jón Gunnar Jónsson og forstjóri flugmálastjórnar Bandaríkjanna, Stephen Dickson. Fór undirritunin fram á Aðalþingi Alþjóðaflugmálastofnunarinnar (ICAO Assembly) sem haldið er á þriggja ára fresti og stendur nú yfir í Montreal. Fulltrúar Samgöngustofu og samgönguráðuneytisins sækja þingið.