Ekkert banaslys til sjós árið 2019

21.1.2020

Bátar í höfn

Ekkert banaslys varð til sjós árið 2019 og er þetta þriðja árið í röð sem sjómenn fagna því að enginn úr þeirra röðum missti líf sitt við starf sitt til sjós. Síðasta banaslysið varð árið 2016 en það ár urðu tvö banaslys. Til samanburðar má benda á að árið 1959 fórust 59 sjómenn og á næstu tíu árum þar á eftir, 1960-1969, létust samtals 234 sjómenn við störf sín á sjó hér við land.

Það var fyrst árið 2008 sem enginn sjómaður lést við störf sín hér á landi en sama gilti um árin 2011, 2014 og nú árin 2017, 2018 og 2019.

Latnireftirarum-asjo

Það er erfitt að benda á eitt atriði umfram annað varðandi það hverju megi þakka þessa jákvæðu þróun en nefna má atriði eins og stofnun Slysavarnarskóla sjómanna árið 1985, breyttar öryggiskröfur og öryggisviðmið, áætlun um öryggi sjófarenda sem sett var á laggirnar árið 2001 og betri og öruggari skip í íslenska flotanum. Fleiri þættir eins og breytt hugarfar og aukin upplýsingagjöf hagsmunaaðila í sjávarútvegi til sinna félagsmanna hafa einnig ýtt undir þessa þróun.