Framtak ársins 2018
Umhverfisverðlaun atvinnulífsins
Umhverfisdagur atvinnulífsins var haldinn í Hörpu í dag. Um árlegan viðburð er að ræða en að honum standa Samtök atvinnulífsins, Samorka, Samtök ferðaþjónustunnar, Samtök fjármálafyrirtækja, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtök iðnaðarins og Samtök verslunar og þjónustu. Þar voru veitt umhverfisverðlaun atvinnulífsins fyrir ,,Framtak ársins 2018“.
Framtak ársins 2018 hlaut Skinney-Þinganes á Hornafirði í samstarfi við Samgöngustofu og Mannvit. Verðlaunin eru veitt fyrir að hafa jákvæð áhrif á umhverfið og sýna frumkvæði með nýjum verkefnum til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Eitt af þeim er að finna nýja orkugjafa á skip félagsins – íslenska repjuolíu. Á Flatey á Mýrum rekur útgerðarfélagið eitt allra stærsta og fullkomnasta kúabú landsins. Þar er repjan lífrænt ræktuð og nýtt að fullu á jörðinni auk þess að vera nýtt sem orkugjafi á skipin. Fóðurmjölið er nýtt í nautgripi, stönglarnir undir dýrin og svo á akurinn sem lífrænn áburður. Jón Bernódusson, fagstjóri rannsóknar, þróunar og greiningar hjá Samgöngustofu hefur komið að verkefninu með Skinney-Þinganesi en undanfarin ár hefur hann unnið frumkvöðlastarf í rannsóknum sínum og tilraunum við að nota hreina repjuolíu til íblöndunar dísilolíu á stórar skipavélar.
Þórólfur Árnason forstjóri Samgöngustofu, Sandra Rán Ásgrímsdóttir sjálfbærniverkfræðingur hjá Mannviti, Gunnar Ásgeirsson stjórnarformaður Skinneyjar-Þinganess, Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands, Jón Bernódusson fagstjóri rannsóknar, þróunar og greiningar hjá Samgöngustofu og Ragna Sara Jónsdóttir formaður dómnefndar Umhverfisverðlauna atvinnulífsins.
Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands með Jóni Bernódussyni, sem leitt hefur verkefnið fyrir hönd Samgöngustofu, við afhendingu Umhverfisverðlauna atvinnulífsins í Hörpu. Með þeim á myndinni er Þórólfur Árnason forstjóri Samgöngustofu ásamt Kolbrúnu Guðnýju Þorsteinsdóttur og Hildi Guðjónsdóttur úr öryggis- og fræðsludeild Samgöngustofu.