Ísland gegnir formennsku í „Arctic Shipping Best Practice Information Forum“

7.6.2019

Þriðji fundur Arctic Shipping Best Practice Information Forum vinnuhópsins fór fram í London í vikunni. Sverrir Konráðsson, fagstjóri í siglingamálum og þýðingum hjá Samgöngustofu, gegnir formennsku vinnuhópsins 2019-2021 samhliða formennsku Íslands í Norðurskautsráðinu (e. Arctic Council). Fundurinn er á vegum PAME, einum af vinnuhópum Norðurskautsráðsins, sem hefur aðsetur á Akureyri.

Meginhlutverk Forum vinnuhópsins er að stuðla að samræmdri innleiðingu Pólkóðans, sem felur í sér lagalega bindandi reglur fyrir skip sem sigla innan skilgreindra svæða á norðurslóðum og við suðurskautslandið og varðar öryggismál og umhverfiskröfur. Aðilar að Forum vinnunni eru yfir 60 og eiga það sameiginlegt að vinna að siglingum á norðurslóðum með einum eða öðrum hætti, ýmist með því að eiga skip sem sigla þangað, skipuleggja ferðir þeirra, veita upplýsingar um veður og fleiri þætti.

Forum vinnuhópurinn styður við innleiðinguna með þessum fundum, og hefur auk þess þróað gagnlega vefsíðu sem safnar saman upplýsingum frá þeim aðilum sem taka þátt í þessari vinnu, allt frá löndunum sem eiga aðild að Norðurskautsráðinu, til rannsóknarstofnana og annarra sem hafa reynslu og þekkingu af siglingum á norðurslóðum.
Vefsíða vinnuhópsins er www.arcticshippingforum.is.

Hopurinn Íslenska sendinefndin. Sverrir Konráðsson fagstjóri í siglingamálum og þýðingum hjá Samgöngustofu, er þriðji frá hægri.