Fundur um stöðugleika, hleðslumerki og öryggi fiskiskipa

19.2.2013

Húsakynni IMO í London.

Þessa dagana stendur yfir í London fundur undirnefndar IMO (Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar) um stöðugleika, hleðslumerki og öryggi fiskiskipa (SLF). Fundinn sækja fulltrúar frá 64 aðildarríkjum, einu aðildarríki með aukaaðild, einni SÞ-stofnunum (FAO) og 18 samtökum með áheyrnarstöðu.. Fyrir Íslands hönd sitja fundinn tveir starfsmenn af stjórnsýslusviði Siglingastofnunar Íslands, Helgi Jóhannesson forstöðumaður og Sverrir Konráðsson sérfræðingur.

 

Jafnframt þátttöku í fundarstörfum héldu þeir sérstaka kynningu, „ Safety of Fishermen and Fishing Vessels in Iceland“, en sem kunnugt er hefur náðst mikill árangur undanfarna áratugi á sviði öryggismála sjómanna. Þann árangur má þakka framförum á fjölmörgum sviðum, s.s. í auknum kröfum um fræðslu og öryggisþjálfun sjómanna, betri öryggisbúnað á skipum, sérstöku átaki í stöðugleika fiskiskipa, sífellt betri og aðgengilegri upplýsingum um veður og sjólag, vöktun skipa, skipaeftirlit, lögskráning sjómanna o.s.frv. Fékk kynningin góðar móttökur af fundarmönnum sem sýndu mikinn áhuga og var vel sótt.

 

Þótt banaslysum meðal íslenskra sjómanna hafi fækkað mikið frá því sem áður var, er mikilvægt að viðhalda stöðugum umbótum í þágu öruggra siglinga. Virk þátttaka Íslands á alþjóðavettvangi er því mikilvæg, svo og innleiðing alþjóðlegra sáttmála þar um í íslensk siglingalög.

 

Fulltrúar Íslands á fundinum

Fulltrúar frá Siglingastofnun Íslands halda kynningu um stöðu öryggismála íslenskra sjómanna og fiskiskipa.

 

Mynd úr fundarsal IMO

Úr fundarsal IMO þar sem fjöldi þjóða á aðild.