Reglugerð um skyldur fánaríkis skipa

18.1.2013

Stórt gámaflutningaskip á siglingu

Innanríkisráðuneytið hefur sett reglugerð um samræmi við skuldbindingar fánaríkja nr. 1161/2012.

Með reglugerðinni er verið að innleiða tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/21/EB frá 23. apríl 2009 um samræmi við kröfur fánaríkis, sjá einnig á ensku.

Markmið tilskipunarinnar er að tryggja að aðildarríki EES sinni skyldum sínum sem fánaríki (skráningarríki skips) með árangursríkum og samræmdum hætti til að auka öryggi og koma í veg fyrir mengun frá skipum. Í því efni ber að fylgja ákvæðum hafréttarsáttmála SÞ og ákvæðum alþjóðasamninga á sviði siglinga. Sérhverju EES-ríki ber að óska eftir úttekt Alþjóðasiglingamálastofnunar (IMO) á amk. sjö ára fresti og ber að vinna eftir gæðastjórnunarkerfi fyrir þann hluta sem tengist fánaríkisverkefnum viðkomandi stjórnvalds og skal slíkt gæðastjórnunarkerfi vera vottað í samræmi við gildandi alþjóðlega staðla. 

Siglingastofnun Íslands ber því í starfsemi sinni, m.a. hvað varðar skipaskráningu, skipaeftirlit, útgáfu skipsskírteina, eftirlit með flokkunarfélögum, siglingavernd, eftirlit með menntun og þjálfun, útgáfu atvinnuskírteina til sjómanna og skírteina um öryggismönnun skipa, að uppfylla framangreind ákvæði tilskipunarinnar.