Notendavænt lögskráningarkerfi sjómanna

30.10.2012

Helgi Jóhannesson flytur erindi um lögskráningarkerfið.

Í ágúst síðastliðnum sendu fjármála- og efnahagsráðuneytið og Félag forstöðumanna erindi til forstöðumanna stofnana þar sem óskað var eftir að þeir tilnefndu verkefni til nýsköpunarverðlauna í opinberri stjórnsýslu og þjónustu. Af hálfu Siglingastofnunar var tilnefnt verkefnið um rafræna lögskráningu sjómanna en þann 1. nóvember 2010 tóku í gildi lög þar um. Þá færðist lögskráning til útgerða og skipstjóra en kerfið og eftirlit er í höndum Siglingastofnunar.

Ávinningurinn af þessari breytingu hefur verið mikill. Bætt eftirlit eykur öryggi sjófarenda um leið og færri starfsmenn en áður sinna skráningum. Hjá báðum aðilum, ríki og útgerðum, sparast því fjármunir auk þess sem notendur eru ekki háðir afgreiðslutíma Siglingastofnunar heldur geta nýtt kerfið allan sólarhringinn á netinu.

Í morgun flutti Helgi Jóhannesson, forstöðumaður á stjórnsýslusviði Siglingastofnunar erindi um lögskráningarkerfið á málstofu sem haldin var í tengslum við veitingu Nýsköpunarverðlauna 2012.
Erindi Helga Jóhannessonar um lögskráningarkerfið má finna hér.

Nýsköpunarverðlaunin 2012 hlaut Samskiptamiðstöð Heyrnarlausra og heyrnarskertra vegna verkefnisins SignWiki og fimm önnur verkefni hlutu viðurkenningu. Nánar má lesa um Nýsköpunarverðlaun hér http://nyskopunarvefur.is/verdlauna_og_vidurkenningarhafar_2012.

Frá afhendingu verðlaunanna

Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson veitti verðlaun og viðurkenningar á ráðstefnu um nýsköpun í morgun.