Cape Town alþjóðasamningur um öryggi fiskiskipa

12.10.2012

Frá ráðstefnu IMO í Cape Town.

Í gærmorgun var samþykktur samhljóða á ráðstefnu Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar (IMO) (http://www.imo.org/MediaCentre/PressBriefings/Pages/44-SFV-conf-ends.aspx) í Cape Town í Suður-Afríku alþjóðasamningur um öryggi fiskiskipa sem eru 24 metrar að lengd og lengri. Samningurinn gengur undir nafninu Cape Town alþjóðasamningurinn um öryggi fiskiskipa, 2012. Langur aðdragandi hefur verið að þessum samningi, en árið 1977 var sams konar samningur samþykktur og honum breytt árið 1993 með bókun sem ekki hafði öðlast gildi einkum vegna þess að ýmis Asíuríki töldu ákvæði bókunarinnar of íþyngjandi.

Mikill einhugur var á ráðstefnunni og voru öll ríki mjög áfram um það að ná þessu samkomulagi sem er mjög mikilvægur áfangi fyrir bættu öryggi fiskiskipa, en 53 ríki undirrituðu samninginn. Ísland hefur lagt mikla áherslu á að þessi samningur yrði samþykktur eins og sjá má á yfirlýsingu Íslands , sem útbúin var fyrir ráðstefnuna, en skv. ákvæðum hans öðlast hann gildi þegar eitt ár er liðið frá því að 22 ríki sem eiga 3600 fiskiskip yfir 24 metrum að lengd hafa fullgilt hann og verður það væntanlega á árinu 2014.

Helgi Jóhannesson og Sverrir Konráðsson

Fulltrúar Íslands á ráðstefnunni í Cape Town: Helgi Jóhannesson, forstöðumaður stjórnsýslusviðs Siglingastofnunar og Sverrir Konráðsson sérfræðingur á sama sviði.