STCW-F hefur tekið gildi

3.10.2012

Ný alþjóðleg samþykkt um menntun og þjálfun, skírteini og vaktstöður áhafna á fiskiskipum tók gildi sl. laugardag.

Alþjóðasamþykkt um menntun og þjálfun, skírteini og vaktstöður áhafna á fiskiskipum, 1995 ( STCW-F; International Convention on Standards of Training, Certification and Watchkeeping for Fishing Vessel Personnel: www.imo.org/About/Conventions/ListOfConventions/Pages/International-Convention-on-Standards-of-Training,-Certification-and-Watchkeeping-for-Fishing-Vessel-Personnel-.aspx) tók gildi sl. laugardag 29. september. Þá var liðið ár frá því að 15. ríkið fullgilti samþykktina. Eftirtalin ríki hafa nú staðfest STCW-F-samþykktina: Danmörk, Ísland, Kanada, Kíribatí, Lettland, Máritanía, Marokkó, Namibía, Noregur, Palau, Rússneska sambandsríkið, Sierra Leone, Spánn, Sýrland, Úkraína og Færeyjar. Alþjóðasiglingamálastofnunin fagnar gildistöku samningsins (www.imo.org/About/Conventions/ListOfConventions/Pages/International-Convention-on-Standards-of-Training,-Certification-and-Watchkeeping-for-Fishing-Vessel-Personnel-.aspx) á heimasíðu sinni.

 

Samkvæmt STCW-F (www.imo.org/About/Conventions/ListOfConventions/Pages/International-Convention-on-Standards-of-Training,-Certification-and-Watchkeeping-for-Fishing-Vessel-Personnel-.aspx) alþjóðasamþykktinni eru gerðar lágmarkskröfur um menntun þjálfun og skírteini áhafna fiskiskipa sem eru 24 metrar að lengd og lengri. Samningurinn samanstendur af 15 greinum og viðauka sem inniheldur tæknilegar reglugerðir.

 

Fyrrverandi framkvæmdastjóri Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar (IMO), Efthimios E. Mitropoulos fagnaði gildistöku STCW-F-samþykktarinnar í september 2011 og sagði hana stuðla með afgerandi hætti að því auka öryggi á sjó, ekki síst þar sem stofnunin undirbyggi ráðstefnu (www.imo.org/About/Events/fishingconf/Pages/default.aspx)  9.–11 október nk. í Höfðaborg í Suður-Afríku í þeim tilgangi að samþykkja samning um framkvæmd ákvæða Torremolinos-bókunarinnar frá 1993 (www.imo.org/About/Conventions/ListOfConventions/Pages/The-Torremolinos-International-Convention-for-the-Safety-of-Fishing-Vessels.aspx) sem tengist Torremolinos-samþykktinni um öryggi fiskiskipa frá 1977. Samningurinn miðar að því að auðvelda gildistöku bókunarinnar.

 

„Öryggi fiskiskipa og sjómanna á fiskiskipum er óaðskiljanlegur hluti af starfsemi stofnunarinnar en þeir tveir alþjóðagerningar um öryggi fiskiskipa sem samþykktar hafa verið á vettvangi stofnunarinnar hafi ekki öðlast gildi vegna þess að ýmsum tæknilegum og lagalegum hindrunum hefur ekki verið rutt úr vegi og því miður verða enn fjölmörg dauðaslys á hverju ári á sviði fiskveiða. Þess er að vænta að gildistaka STCW-F-samþykktarinnar árið 2012 og áframhaldandi vinna við að stuðla að því að Torremolinos-bókunin öðlist gildi sem bindandi alþjóðlegt öryggisregluverk gegni veigamiklu hlutverki í því að snúa þeirri þróun við“ sagði framkvæmdastjórinn og lét þá von í ljós að gildistökuskilyrði Torremolinos-bókunarinnar yrðu einnig uppfyllt eins fljótt og auðið væri.

 

Ísland er aðili að STCW-F (www.imo.org/About/Conventions/ListOfConventions/Pages/International-Convention-on-Standards-of-Training,-Certification-and-Watchkeeping-for-Fishing-Vessel-Personnel-.aspx) alþjóðasamþykktinni síðan 28. maí 2002, sbr. auglýsing í C-deild Stjórnartíðinda nr. 31/2002, en með þingsályktun Alþingis frá 20. apríl 2002 heimilaði Alþingi að Ísland gerist aðili að alþjóðasamþykktinni. Ákvæði alþjóðasamþykktarinnar hafa verið tekin upp íslensk lög með lögum nr. 30/2007 um áhafnir íslenskra fiskiskipa, varðskipa, skemmtibáta og annarra skipa og reglugerð um skipstjórnar- og vélstjórnarréttindi á fiskiskipum, varðskipum og öðrum skipum, nr. 175/2008 með síðari breytingum.

Siglingastofnun hefur frá 1. janúar 2008 gefið út atvinnuskírteini til íslenskra skipstjórnar- og vélstjórnarmanna til starfa á fiskiskipum í samræmi við STCW-F alþjóðasamþykktina og hafa íslenskir sjómenn geta starfað á grundvelli þeirra óhindrað á erlendum fiskiskipum. Útgáfa skírteinanna fer fram skv. gæðastjórnunarkerfi í samræmi við kröfur Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar og Evrópusambandsins.

Þann 29. september 2012 voru í gildi 5315 atvinnuskírteini til skipstjórnar á fiskiskipum og 2988 atvinnuskírteini til vélstjórnar á fiskiskipum.