Sérstakt átak hafnarríkiseftirlitsins

12.9.2012

Tilgangur hafnarríkiseftirlit er að stemma stigu við siglingum skipa sem uppfylla ekki alþjóðakröfur.

Til septemberloka stendur hafnarríkiseftirlit Siglingastofnunar fyrir sérstöku átaki sem hófst í maímánuði. Er það gert í því skyni að kortleggja varúðarráðstafanir skemmtiferðaskipa sem sigla að sumarlagi til Grænlands eða Svalbarða og hafa viðkomu á Íslandi. Fulltrúi eftirlitsins fer um borð í þessi skip, óháð skipulagðri skoðun á þeim, og leggur fyrir stjórnendur þeirra spurningalista um sérstakar ráðstafanir vegna siglinga um heimskautasvæði. Er skipstjórum jafnframt fengnar upplýsingar um siglingar á Grænlandshafi frá dönskum siglingayfirvöldum, en átakið var gert í samvinnu hafnarríkiseftirlits Íslands og Danmerkur.

Gefi afrakstur sumarsins góða raun getur það hvatt til aukinnar samvinnu landanna í framtíðinni um öruggari siglingar á hafsvæðinu milli Íslands og Grænlands. Eftirlit með erlendum skipakomum er unnið skv. alþjóðlegu samkomulagi um hafnarríkiseftirlit, svokölluðu Parísarsamkomulagi ( Paris MOU). Almennur tilgangur þess er að stemma stigu við siglingum skipa sem uppfylla ekki alþjóðakröfur um aðbúnað, öryggi,hollustuhætti, atvinnuréttindi og mengun.