Alþjóðlegur minningardagur fórnarlamba umferðarslysa

sunnudaginn 19. nóvember 2017

20.11.2017

Minningardagur um þá sem látist hafa í umferðarslysum var haldinn í sjötta sinn hér á landi sunnudaginn 19. nóvember. Þessi dagur hefur ekki aðeins verið tileinkaður minningu látinna í umferðinni heldur hefur jafnframt skapast sú venja hér á landi að heiðra þær starfsstéttir sem koma að björgun og aðhlynningu þegar umferðarslys verður.  

Frá athöfninni, hópurinn fyrir framan þyrluna, slökkviliðsbíla og sjúkraflutningabíla

Ragnhildur Hjaltadóttir ráðuneytisstjóri í samgöngu- og sveitarstjórnar-ráðuneytinu stjórnaði athöfninni. Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, hélt hjartnæma ræðu og minnist á mikilvægi forvarna og fræðslu og hvatti landsmenn til að standa saman í að fækka bílslysum og að hver og einn bæri ábyrgð. Jón Gunnarsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, flutti ávarp.

Guðni Th Jóhannesson heldur ræðu

Þá sagði Þórir Guðmundsson, lögreglumaður á Ísafirði, frá reynslu sinni en hann missti tvíburasystur sína, Þóreyju Guðmundsdóttur, í umferðarslysi á Hnífsdalsvegi árið 2006. Þórey var aðeins sautján ára gömul og í blóma lífsins þegar hún lést en talið er að slæmar aðstæður og notkun farsíma við akstur hafi valdið slysinu. Þórir sagði sárt að vita til þess fjölda ökumanna sem notar snjallsímann við akstur. Að það er ekki samfélagslega viðurkennt og fordæmt en samt er það viðhaft af mörgum.

Ágúst Mogensen

Ágúst Mogensen, sérfræðingur í forvörnum hjá VÍS, sagði frá  slysinu þegar Þórey lést, en hann stýrði rannsókninni á sínum tíma. Hvöttu þeir báðir landsmenn til að heiðra minningu Þóreyjar með því ,,gera ekki neitt" þegar farsíminn kallar á athygli við akstur. 

Farsímanotkun við akstur er áhættuhegðun sem hefur stórlega aukist á undanförnum árum og hefur mikil áhrif á aksturshegðun ökumanna. Það er óhætt að segja að í dag sé þetta orðið meðal þess sem veldur hvað mestum áhyggjum í umferðaröryggismálum heimsins í dag.  

Mikill samhugur ríkti á meðal viðstaddra og laut fólk höfði og minntist látinna með einnar mínútu þögn. Viðstöddum var svo boðin hressing í bílageymslu bráðamóttökunnar.

Frá athöfninni

Hluti hópsins

Guðni forseti ásamt hópnum
Ljósmyndir: Einar Magnús Magnússon.