Árlegur minningardagur 20. nóvember

Umferðarslysum fækkaði en fjölgar nú aftur

14.11.2016

_28A3883-Low-res2 Sunnudaginn 20. nóvember verður minnst þeirra sem látist hafa í umferðarslysum á Íslandi. Efnt verður til þessarar athafnar í fimmta sinn og er hliðstæð athöfn víða um heim að tilhlutan Sameinuðu þjóðanna sem hafa tileinkað þriðja sunnudag í nóvember þessari minningu.

Athöfn verður við þyrlupall bráðamóttöku Landspítalans í Fossvogi í Reykjavík sem hefst klukkan 11. Landsmenn eru hvattir til að leiða hugann að minningu þeirra sem látist hafa í umferðinni og íhuga þá ábyrgð sem hver og einn ber í umferðinni. Dagurinn er ekki aðeins tileinkaður minningu látinna í umferðinni heldur hefur skapast sú venja hér á landi að heiðra þær starfsstéttir sem sinna björgun og aðhlynningu þegar umferðarslys verður. Eru þessum starfsstéttum færðar þakkir fyrir mikilvægt og óeigingjarnt starf þeirra.

Gert er ráð fyrir að ein af þyrlum Landhelgisgæslunnar lendi á þyrlupalli bráðamóttökunnar rétt fyrir athöfnina og verður ökutækjum viðbragðsaðila stillt upp við þyrluna. Má þar nefna lögreglubíla og bifhjól, sjúkrabíla, slökkviliðsbíla, björgunarsveitarbíla og fleiri.

  Dagskrá :

  1. Þyrla landhelgisgæslunnar lendir við þyrlupall bráðamóttöku Landspítalans í Fossvogi klukkan 10:45
  2. Athöfnin hefst klukkan 11:00
  3. Ragnhildur Hjaltadóttir, ráðuneytisstjóri innanríkisráðuneytis, setur athöfnina.
  4. Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, flytur ávarp klukkan 11:05. 
  5. Einnar mínútu þögn verður klukkan 11:15.
  6. Klukkan 11:16 mun Helga Þorbergsdóttir, hjúkrunarfræðingur og sjúkraflutningamaður í Vík í Mýrdal, segja frá lífsreynslu sinni og störfum tengdum umferðarslysum. 

Aðstandendur og aðrir sem minnast vilja þeirra sem hafa látist í umferðarslysum eru velkomnir á minningarstundina. Þátttakendum verður í framhaldinu boðin hressing í bílageymslu bráðamóttökunnar. Þeir sem eiga ekki heimagengt eru hvattir til að sýna viðeigandi hluttekningu þennan dag, hvar sem þeir eru staddir.  

_28A3621-Low-res


Umferðarslysum fækkaði en fjölgar nú aftur

Þann 1. nóvember 2016 höfðu alls 1.017 manns látist í umferðinni á Íslandi frá því að skipt var yfir í hægri umferð 26. maí 1968. Ef farið er aftur til fyrsta skráða umferðarslyssins á Íslandi, 25. ágúst 1915, þá hafa 1.533 látist í umferðinni á Íslandi í 1.405 slysum.

Að meðaltali hefur umferðarslysum fækkað mikið undanfarna áratugi, sérstaklega banaslysum. Árin 2007-2016 létust að jafnaði 12,3 á hverju ári í umferðinni. Næstu 10 ár þar á undan (1997-2006) létust að jafnaði 24,4 á ári. Því má ætla að með betri bílum, betri vegum og betri hegðun ökumanna hafi tekist að bjarga um 12 mannslífum á hverju ári síðustu 10 árin.

Mikil áhersla hefur verið lögð á fræðslu og leiðbeiningar sem m.a. hefur leitt til breytts viðhorfs til áhættuhegðunar eins og hraðaksturs og ölvunaraksturs. Miklar kröfur eru gerðar til öryggis bifreiða og samgöngumannvirkja og áhersla lögð á skilvirka löggæslu. Framan af þessari öld hefur umferðarslysum fækkað og lengst af höfum við verið meðal þeirra þjóða sem hvað bestum árangri ná í umferðaröryggismálum. Nú stefnir hinsvegar í aðra átt. Árið 2015 fjórfaldaðist fjöldi látinna frá árinu 2014, fór úr 4 í 16 manns. Það sem af er þessu ári hafa 15 manns látið lífið í umferðinni.

Alvarlega slösuðum og látnum hefur fjölgað talsvert á þessu ári og stefnir í versta ár síðasta áratuginn. Á fyrstu 8 mánuðum ársins 2016 er fjöldi alvarlega slasaðra og látinna 145 en var á sama tímabili í fyrra 111. Eftir þó nokkra fækkun slasaðra vegna ölvunaraksturs síðustu árin stefnir í mjög krappan viðsnúning og hafa slasaðir vegna ölvunaraksturs fyrstu átta mánuðina ekki verið fleiri síðan árið 2008.

Innanríkisráðuneytið og Samgöngustofa hvetja landsmenn til ábyrgðar í umferðinni til að snúa megi við þessari óheillaþróun. Efla þarf forvarnir til fækkunar umferðarslysum. Þar geta allir lagt hönd á plóg.

Innanríkisráðuneytið og Samgöngustofa hafa undirbúið athöfnina.