Breytingar á lögum um farþegaflutninga á landi

30.6.2021

Þann 13. júní síðastliðinn voru samþykktar á Alþingi breytingar á lögum um farþegaflutninga og farmflutninga á landi, nr. 28/2017, sjá lög nr. 97/2021. Helstu breytingar snúa meðal annars að tímabundnum gestaflutningum í farþegaflutningum. Breytingarnar fela það í sér að slíkir flutningar teljast aðeins tímabundnir, séu þeir stundaðir í 10 samfellda daga eða færri innan almanaksmánaðar. Ef aksturstímabil nær yfir mánaðamót eða ef því lýkur við mánaðamót skulu hið minnsta tveir virkir dagar líða frá lokum aksturstímabils þar til flytjandi hefur akstur á nýju tímabili. Ekki er gerð krafa um að ökutæki í gestaflutningum fari af landi brott á milli aksturstímabila en bent skal á skilyrði varðandi tímabundinn innflutning og gjaldskyldu, skv. ákvæðum tollalaga, nr. 88/2005.

Í þessu sambandi er bent á að ekkert leyfi þarf til farþegaflutninga í eigin þágu flytjanda, en samkvæmt 8. tölul. 3. gr. laga nr. 28/2017 er skilgreining á flutningum í eigin þágu sú að ekki er innheimt gjald fyrir flutning fólks.

Ruta

Helstu nýmæli í lögunum eru:

  • Flytjanda1 sem hefur staðfestu í aðildarríki EES-svæðisins og handhafi bandalagsleyfis er heimilt að starfrækja tímabundna gestaflutninga í farþegaflutningum hér á landi í allt að tíu samfellda daga í hverjum almanaksmánuði.
  • Flytjandi skal tilgreina í akstursskrá sem geymd er í ökutæki það tímabil innan almanaksmánaðar sem hann hyggst stunda tímabundna gestaflutninga á.
  • Við komu til landsins skal flytjandi afhenda tollgæslu afrit af akstursskrá til varðveislu.
  • Ef aksturstímabil nær yfir mánaðamót eða ef því lýkur við mánaðamót skulu hið minnsta tveir virkir dagar líða frá lokum aksturstímabils þar til flytjandi hefur akstur á nýju tímabili.
  • Ekki þarf að leggja fram aksturskrá ef flutningur er án gjalds og í eigin þágu.
  • Lögreglu heimilt að fyrirskipa kyrrsetningu ökutækis sem notað er við tímabundna gestaflutninga fari flutningur fram utan tímabils sem tilgreint er í akstursskrá eða ef flutningur er ekki í samræmi við 11. gr. a að öðru leyti.

Fyrir utan framangreint um gestaflutninga þá eru þau nýmæli sett í lögin að flytjanda í almenningssamgöngum er heimilt að krefja þá farþega um sérstakt vanræksluálag sem ekki geta sýnt fram á að þeir hafi greitt rétt fargjald. Álagið tekur hlutfallslegt mið af fargjaldinu.

Flytjandi: Einstaklingur eða lögaðili, þ.e. flutningsaðili, sem býður almenningi reglubundinn eða óreglubundinn farþegaflutning eða farmflutning samkvæmt lögum þessum.


Sjá nánar um lagabreytinguna á vef Alþingis

Sjá nánar um akstursskrá í fyrsta og öðrum viðauka við reglugerð (ESB) nr. 361/2014 um ítarlegar reglur um beitingu reglugerðar (EB) nr. 1073/2009 að því er varðar skjöl vegna farþegaflutninga milli landa með hópbifreiðum.