Ekið gegn einstefnu við skóla

24.9.2014

Á dögunum barst lögreglu höfuðborgarsvæðisins ábending þar sem foreldri kvartaði undan því hvernig sumir ökumenn stunduðu að aka gegn einstefnu við Álftamýrarskóla í Reykjavík og trufluðu þannig flæði umferðar um bílastæðin. Lögreglan brást hratt og vel við og setti sig í samband við skólann, en í kjölfarið var foreldrum sendur póstur frá skólanum þar sem brýnt var fyrir ökumönnum að virða reglurnar sem gilda um umferð á bílastæðinu. Skömmu síðar fylgdist lögreglan með bílastæðunum, sem varð til þess að fimm ökumenn fengu sekt fyrir að virða ekki umferðarmerki.

Lögreglan biður ökumenn því að leiða hugann að mikilvægi þess að þeir séu góðar fyrirmyndir í umferðinni og leggi áherslu á að fylgja reglum og sýna gott fordæmi í samskiptum við aðra.