Ekið í veg fyrir tvo reiðhjólamenn
Slys varð í síðustu viku við Suðurlandsbraut þegar tveir menn á sitt hvoru reiðhjólinu lentu í árekstri við vörubifreið sem ekið var í veg fyrir þá þar sem þeir fóru um reiðhjólastíg. Reiðhjólamennirnir voru á ferð um stíginn þegar þeir sáu skyndilega vörubifreið þvera leið þeirra, en bifreiðinni var ekið frá leikskóla við Suðurlandsbraut og yfir stíginn. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu segist ökumaðurinn hafa hægt á sér áður en hann hélt yfir stíginn en þar sem hann hafi ekki séð neina umferð á stígnum hafi hann farið af stað en vissi þá ekki fyrr en hann heyrði dynk. Báðir reiðhjólamenn slösuðust við óhappið, annar þó talsvert meira. Báðir voru fluttir á sjúkrahús með sjúkrabifreið.
Samgöngustofa vill árétta mikilvægi þess að ökumenn hugi vel að aðstæðum áður en göngu- og hjólastígar eru þveraðir sérstaklega þar sem erfitt getur reynst að greina umferð um stíginn. Jafnframt skal minnt á mikilvægi þess að vegfarendur á hjóla eða göngustígum gæti þess að fara ekki of hratt þannig að ekki skapist óþarfa hætt fyrir þá vegna þeirra sem þvera stíginn í góðri trú um að leiðin sé greið.