Endurmenntun bílstjóra með réttindi til að stjórna bifreið í C1-, C-, D1-, og D-flokki í atvinnuskyni
27. febrúar s.l. tóku gildi breytingar á umferðarlögum (lög nr. 13/2015) sem m.a. fela í sér kröfu um endurmenntun ökumanna stórra ökutækja í C1-, C-, D1-, og D-flokki til farþega- og vöruflutninga í atvinnuskyni.
10. júlí tóku gildi nánari ákvæði um þetta í Reglugerð nr. 628/2015 um breytingu á reglugerð nr. 830/2011 um ökuskírteini. Ennfremur var birt auglýsing (nr. 632/2015) um námskrá fyrir endurmenntun bílstjóra með réttindi til að stjórna bifreið í C1-, C-, D1-, og D-flokki í atvinnuskyni.
Námið skal fara fram hjá viðurkenndum námskeiðshaldara, þ.e. ökuskóla sem hefur starfsleyfi eða hjá öðrum aðila með sérstöku leyfi Samgöngustofu. Fjöldi kennslustunda skal vera samtals 35 stundir í 7 stunda lotum á síðustu fimm árum fyrir endurnýjun. Hverri lotu má skipta niður á tvo samliggjandi daga innan 24 klukkustunda. Viðurkenndur námskeiðshaldari getur boðið upp á fjarnám uppfylli það kröfur þessar.
Endurmenntun skiptist í þrjá hluta:
· Kjarni: 21 kennslustund. Vistakstur – öryggi í akstri, lög og reglur og umferðaröryggi – bíltækni. Allir verða að taka kjarna.
· Valkjarni: 7/14 kennslustundir. Farþega- og vöruflutningar. Bílstjóri sem er bæði með réttindi til farþega- og vöruflutninga í atvinnuskyni hefur val um hvorn hluta valkjarnans hann tekur en hann má líka taka báða. Bílstjóri sem eingöngu er með réttindi til farþegaflutninga í atvinnuskyni verður að taka farþegaflutningahlutann og bílstjóri sem eingöngu er með réttindi til vöruflutninga verður að taka vöruflutningahlutann.
· Val: 7/0 kennslustundir. Í vali getur bílstjóri sótt sérhæft námskeið sem varðar starf hans og fellur efnislega undir námskrá Samgöngustofu fyrir flokka aukinna ökuréttinda frá janúar 2005. Sérhæft námskeið í vali skal viðurkennt af Samgöngustofu.
Þeir sem eru með réttindi útgefin fyrir 10. september 2013 skulu hafa lokið sinni fyrstu endurmenntun fyrir 10. september 2018 og eftir það allir við endurnýjun (þ.e. á fimm ára fresti).
Hafi umsækjandi um endurnýjun ökuskírteinis ekki sótt endurmenntunarnámskeið, má endurnýja það án réttinda til aksturs í atvinnuskyni.