Minningardagur um fórnarlömb umferðarslysa haldinn hátíðlegur
Minningardagur um þá sem látist hafa í umferðarslysum var haldinn í fjórða sinn hér á landi sunnudaginn 16. nóvember. Þessi dagur hefur ekki aðeins verið tileinkaður minningu látinna í umferðinni heldur hefur jafnframt skapast sú venja hér á landi að heiðra þær starfsstéttir sem koma að björgun og aðhlynningu þegar umferðarslys verður.
Ragnhildur Hjaltadóttir ráðuneytisstjóri í innanríkisráðuneytinu stjórnaði athöfninni sagði m.a. frá tilurð þessa minningardags hér á landi. Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands minnist í ræðu sinni á mikilvægi þess að landsmenn stæðu saman í að fækka bílslysum og að hver og einn bæri ábyrgð.
Þá sagði Ása Sigurjóna Þorsteinsdóttir sögu sína, en hún lenti í hörmulegu umferðarslysi á Suðurnesjum árið 2010 þar sem vinkonur hennar þær Lena Margrét og Unnur Lilja létust aðeins átján ára gamlar.
Loks flutti Kristín Sigurðardóttir, slysa- og bráðalæknir á bráðamóttöku Landspítalans, ávarp fyrir hönd viðbragðsaðila. Hún hefur bæði tekið á móti slösuðum við komu á spítala og farið út á vettvang með neyðarbíl eða þyrlu.
Mikill samhugur ríkti á meðal viðstaddra og laut fólk höfði og minntist látinna með einnar mínútu þögn.
