Höldum fókus hlýtur Lúðurinn 2013

22.2.2014

Vefverkefnið Höldum fókus sem Samgöngustofa hratt af stað sumarið 2013 í samstarfi við Símann og framleiðslufyrirtækið Tjarnargatan hefur sópað að sér verðlaunum og viðurkenningum að undanförnu. Á föstudag hlaut átakið Almannaheillaverðlaun í samkeppni Ímarks um Íslensku auglýsingaverðlaunin og hlut að launum Lúðurinn sem er verðlaunagriður veittur þeim sem þykja skara framúr hvað varðar auglýsingagerð á Íslandi. Tilgangur Lúðursins er að vekja athygli á vel gerðu auglýsingaefni og veita aðstandendum þess verðskuldaða athygli. Keppnin er opinn öllum sem stunda gerð eða dreifingu auglýsinga á Íslandi.

Viku áður hlaut Höldum fókus Nexpo 2013 verðlaunin í flokknum "Herferð ársins" en þar áður hafði herferðin hlotið vefverðlaunin 2013 í flokknum "Besta markaðsherferð á netinu" þegar Samtök vefiðnaðarins veittu þau verðlaun í janúar. Auk þess var Höldum fókus tilnefnt í flokknum „Frumlegasti vefurinn“. Herferðin hefur einnig verið tilnefnd til Íslensku auglýsingaverðlaunanna hjá Ímark en þau verða afhent 24. febrúar.

Það sem skiptir aðstandendur herferðarinnar þó mestu máli er sá árangur sem herferðin virðist hafa skilað en í viðhorfskönnun sem Capacent gerði í lok árs 2012 þar sem fólk var spurt hvort það tali, oft, stundum, sjaldan eða aldrei í farsíma án handfrjáls búnaðar á meðan á akstri stendur kom í ljós að í aldurshópnum 18 – 24 sögðust 22% gera það oft áður en herferðinni var hrundið af stað. Í könnun sem gerð var í desember 2013 þ.e. eftir herferðina mátti sjá afgerandi mun í þessum aldurshópi en þá var hlutfall þessa hóps komið niður í 8%. Þeir sem segjast oft eða stundum tala í síma án handfrjáls búnaðar á meðan á akstri stendur eru nú samtals 41% en voru 50% áður en Höldum fókus var sett af stað. Óhætt er að segja að þetta sé framar öllum vonum aðstandenda herferðarinnar.

Með því að smella á www.holdumfokus.is má fara inn á síðuna en notandinn verður að vera með facebook aðgang og GSM síma við höndina. Tekið skal fram að enginn kostnaður fellur á notandann og upplýsingar um símanúmer og facebook aðgang eru hvergi vistaðar.

Hópurinn eftir verðlaunaafhendinguna

Hluti aðstandenda verkefnisins Höldum fókus úr hópi starfsmanna Símans, Tjarnagötunnar og Samgöngustofu.