Höldum fókus tilnefnd til vefverðlauna NEXPO 2013

6.2.2014

Vefverkefnið Höldum fókus sem Samgöngustofa hratt af stað sumarið 2013 í samstarfi við Símann og framleiðslufyrirtækið Tjarnargatan hefur verið tilnefnt til vefverðlauna NEXPO 2013 í flokknum "Herferð ársins".
Markmið NEXPO er að hampa því sem vel er gert í vef- og markaðsgeiranum en í vali sínu á herferð ársins leitaði dómnefnd eftir herferð sem hefur allt í senn haft mikil áhrif, tekist vel upp og farið að megninu til fram á netmiðlum.

Herferðin Höldum fókus vakti á sínum tíma mikla athygli en henni var ætlað að undirstrika mikilvægi þess að ökumenn haldi fókus og láti ekki síma trufla sig á meðan á akstri stendur. Það sem er óvenjulegt við þessa herferð er gagnvirknin sem er á milli áhorfandans, facebook myndbandsins og GSM símans sem viðkomandi verður að vera með. 

Í kjölfar myndarinnar birtist áskorun um að halda fókus og tryggja öryggi í umferðinni með því að láta ekki síma trufla sig við aksturinn. Mikil dreifing varð á myndinni og verkefninu á samskiptamiðlum. Þess má geta að rúmlega 35 þúsund manns tóku áskoruninni og deildu myndinni og enn fleiri sáu hana. Með því að smella á www.holdumfokus.is má fara inn á síðuna en notandinn verður að vera með facebook aðgang og GSM síma við höndina. Tekið skal fram að enginn kostnaður fellur á notandann og upplýsingar um símanúmer og facebook aðgang eru hvergi vistaðar.

Þess má geta að Höldum fókus bar nýverið sigur úr bítum sem "Besta markaðsherferð á netinu" þegar Samtök vefiðnaðarins veittu Vefverðlaunin 2013. Árangur herferðarinnar er ótvíræður en samkvæmt viðhorfskönnun Capacent sem gerð var í desember 2013 kom í ljós að hlutfall ökumanna á aldrinum 18-24 ára sem segjast nota síma á meðan á akstri stendur var 8%, samanborið við 22% árið áður.

NEXPO verðlaunin verða veitt við hátíðlega athöfn í Bíó Paradís föstudaginn 14. febrúar næstkomandi kl.19.00. Kosning til NEXPO verðlaunanna er öllum opin.

Mynd af bíl á hvolfi - úr herferðinni