Höldum fókus tilnefnd í tveimur flokkum vefverðlauna

21.1.2014

Mynd af heimasíðunni Höldum fókus

Samtök vefiðnaðarins sendu í dag frá sér lista yfir þau verkefni sem eru í úrslitum til Íslensku vefverðlaunanna 2013.

Vefverkefnið Höldum fókus sem Samgöngustofa setti af stað sumarið 2013 í samstarfi við Símann og framleiðslufyrirtækið Tjarnargatan hefur verið tilnefnt til verðlauna í tveimur flokkum, „Frumlegasti vefurinn“ og „Besta markaðsherferðin á netinu“.

Herferðin vakti á sínum tíma mikla athygli en henni var ætlað að undirstrika mikilvægi þess að ökumenn haldi fókus og láti ekki síma trufla sig á meðan á akstri stendur. Það sem er óvenjulegt við þessa herferð er gagnvirknin sem er á milli áhorfandans, facebook myndbandsins og GSM símans sem viðkomandi verður að vera með. Ekki er vitað um önnur dæmi þess að slíkt hafi verið framkvæmt áður enda krafðist þessi hugmynd flókinna tæknilegra úrlausna sem starfsmenn Símans og Tjarnargötunnar leystu af mikilli hugvitsemi.

Í kjölfar myndarinnar birtist áskorun um að halda fókus og tryggja öryggi í umferðinni með því að láta ekki síma trufla sig við aksturinn. Mikil dreifing varð á myndinni og verkefninu á samskiptamiðlum og þess má geta að rúmlega 25 þúsund manns tóku áskoruninni og deildu myndinni og enn fleiri sáu hana. 

Íslensku vefverðlaunin eru veitt þeim íslensku vefverkefnum sem hafa þótt skara framúr á árinu. Verðlaunaafhendingin verður haldin föstudaginn 31. janúar klukkan 17:00. 

Með því að smella hér á www.holdumfokus.is má fara inn á síðuna en notandinn verður að vera með facebook síðu og GSM síma við hendina. Tekið skal fram að engin kostnaður fellur á notandann og upplýsingar um símanúmer og facebook síðu eru hvergi vistaðar.