Umferðarsáttmálinn kynntur í dag
Í dag, miðvikudaginn 18. september, verður Umferðarsáttmálinn kynntur í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum. Umferðarsáttmálanum, sem inniheldur nokkurskonar kurteisisreglur í umferðinni, er ætlað að auka sameiginlegan skilning á því hvernig við viljum haga okkur í umferð, hvernig við sýnum hvort öðru tillitssemi og stuðlum þannig að auknu öryggi. Sáttmálinn hefur verið í vinnslu síðustu mánuði, en hitann og þungann af starfinu hafa borið fjórtán sjálfboðaliðar, karlar og konur á öllum aldri, sem allir hafa brennandi áhuga á umferðarmálum og umferðaröryggi, í samvinnu við Lögregluna á höfuðborgarsvæðinu og Samgöngustofu.
Kynningin fer fram í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum kl.14.00 og mun forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, veita sáttmálanum viðtöku fyrir hönd þjóðarinnar. Allir áhugamenn um umferðina eru hjartanlega velkomnir og opnar garðurinn kl.13.00.