Göngum í skólann 2013

4.9.2013

Göngum í skólann var formlega sett í Álftanesskóla í dag. Sveinbjörn Markús Njálsson, skólastjóri Álftanesskóla, Hörður Már Harðarson formaður Slysavarnafélagsins Landsbjargar og Lárus Blöndal forseti ÍSÍ ýttu verkefninu úr vör. Við athöfnina flutti Sigríður Thorlacius nokkur lög. Þetta er í sjöunda sinn sem Ísland tekur þátt í þessu alþjóðlega verkefni. Hér á landi fer skráning skóla mjög vel af stað en enn er hægt skrá skóla til leiks. Það má gera með því að senda tölvupóst á Örvar Ólafsson, verkefnastjóra hjá Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands, orvar@isi.is

Meginmarkmið Göngum í skólann eru að hvetja nemendur og foreldra á Íslandi til að ganga, hjóla eða fara á annan virkan hátt til og frá skóla. Um leið er ætlunin að hvetja til aukinnar hreyfingar með því að auka færni barna til að ganga á öruggan hátt í skólann. Farið er yfir reglur um öryggi á göngu og á hjóli á sama tíma og börnin eru frædd um ávinning reglulegrar hreyfingar. Með verkefninu er einnig kappkostað að draga úr umferðarþunga, mengun og hraðakstri nálægt skólum.

Þeir sem að verkefninu standa hérlendis eru: Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands, mennta- og menningarmálaráðuneytið, Landlæknir, Ríkislögreglustjóri, Slysavarnafélagið Landsbjörg, Samgöngustofa og Landssamtökin Heimili og skóli. 

Hópurinn með "Göngum í skólann" fána átaksins í íþróttahúsinu  Börnin í Álftanesskóla ganga í röð
Hópur barna í Álftanesskóla á hjólunum fyrir utan skólann   Börnin ganga í halarófu með kennurunum